Hvernig Ísland hagnast á loftslagsbreytingunum

Bandaríska fréttatímaritið Newsweek fjallar í nýjasta tölublaði sínu um skógrækt á Íslandi og hvernig loftslagsbreytingar hjálpa til við útbreiðslu skóglendis á landinu. Það sé sérstakt á þessari breiddargráðu því víðast hvar á norðlægum slóðum hafi menn meiri áhyggjur af því að skógarnir líði fyrir ýmis vandamál sem fylgi hlýnandi loftslagi og færslu trjátegunda til norðurs.

Greinina skrifar blaðamaðurinn Douglas Main sem mikið hefur skrifað um vísindi, heilbrigðismál, náttúru og umhverfi. Hann ræðir meðal annarra við tvo forystumenn hjá Skógrækt ríkisins, þá Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og Þröst Eysteinsson sviðstjóra þjóðskóganna.

Fram koma í greininni þau margvíslegu jákvæðu áhrif sem aukin útbreiðsla skóga hefur á Íslandi, ekki síst til að hamla gegn landeyðingu. Farið er yfir eyðingu þess mikla skóglendis sem var á Íslandi við landnám, sagt frá aukinni skógrækt á síðustu áratugum og hvernig skógarauðlindin er farin að sýna sig í aukinni sölu tjáviðar úr íslensku skógunum. Gegn öllum þeim jákvæðu kostum sem fylgja skógrækt í því bera landi sem Ísland er þykir blaðamanni Newsweek léttvæg felast í þeim ótta sumra að íslenskri náttúru stafi ógn af ræktun erlendra trjátegunda.

Greinina í heild má lesa með því að smella hér.

Texti: Pétur Halldórsson