Nemendur annars árs starfsmenntabrautar við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, auk fjarnema við skólann, heimsóttu Skógrækt ríkisins í Skorradal síðastliðinn föstudag. Ferðin var farin í tengslum við áfangann Nytjaskógrækt og með í för voru kennararnir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir sem sér um fjarnemana og  Valdimar Reynisson, skógarvörður, sem er umsjónarkennari áfangans. Nemendur kynntust starfsemi Skógræktar ríkisins í heimsókninni. Byrjað var á því að stoppa í Hvammi og viðarvinnslan og vélar til útdráttar voru skoðaðar. Síðan var farið inn á Stálpastaði og þar var skógurinn skoðaður og ýmsar aðgerðir í skógi ræddar af miklum móð. Þar var spáð í grisjun, útkeyrslu, mismun milli trjátegunda, skógmælingar, landgræðsluskógrækt og útivist, svo fátt eitt sé nefnt. Veðrið var gott en kalt og voru nemendurnir almennt ánægðir með ferðina.

Á meðfylgjandi mynd er hluti hópsins að borða nestið sitt við gamla bæinn á Stálpastöðum.



Mynd og texti : Valdimar Reynisson, skógarvörður