Mikilvæg viðurkenning á gildi skógræktar

Bandaríska landfræðifélagið National Geographic Society hefur nú birt á stuttmyndavef sínum myndbandið sem EUFORGEN gerði á liðnu sumri um nýskógrækt á Íslandi og aðlögun þess efniviðar sem notaður er í nytjaskógrækt hérlendis. Birting efnis á þessum vef ber ekki einungis vott um gæði myndbandsins heldur einnig vægi umfjöllunarefnisins.

National Geographic Society var stofnað árið 1888 og er nú einhver stærsta vísinda- og lærdómsstofnun í heimi sem ekki er rekin í hagnaðarskyni. Höfuðstöðvarnar eru í Washington-borg en starfsemin teygir sig um allan heim og umfjöllunarefnin eru hvers kyns landfræðileg efni, fornleifafræði, náttúruvísindi ýmiss konar, verndarmál, mannkynssaga og heimsmenning. Lengi vel var félagið þekktast fyrir tímarit sitt sem kemur út mánaðarlega og hefur ekki breytt um svip sem heitið getur frá upphafi. Tímaritið er mikilvægasta fjáröflun félagsins enn í dag. Í takti við tímann hefur líka á síðari árum þróast ýmis önnur öflug starfsemi á vef félagsins, svo sem vinsæl sjónvarpsrás og ýmiss konar viðburðir og margmiðlunarstarfsemi fer fram vítt og breitt um heiminn.

Á stuttmyndavef félagsins, Short Film Showcase, eru birt vönduð myndbönd úr ýmsum áttum sem falla að viðfangsefnum National Geographic. Það er heiður fyrir Skógræktina að eiga nú hlut að einu þeirra, myndbandinu Afforestating Iceland - a hope for optimism, sem gert var fyrir tilstilli EUFORGEN, evrópsks samstarfs um vernd og nýtingu erfðaauðlinda skóga.

Myndbandið sýnir að Ísland er ekki eitt á báti. Landið er eitt versta dæmið í Evrópu um skógareyðingu og eyðimerkurmyndun og í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og þá vá sem að okkur steðjar vegna loftslagsbreytinga er mikilvægt verkefni að klæða landið skógi á ný. Fyrir loftslagið og umhverfið er mikils um vert að sá skógur nýtist í lífhagkerfi framtíðarinnar og úr honum fáist sjálfbær hráefni sem leysa af hólmi mengandi og ósjálfbær jarðefni.

Texti: Pétur Halldórsson