Tréð fallið og borgarstjóri ánægður með verkið.
Tréð fallið og borgarstjóri ánægður með verkið.

Borgarstjóri kominn með merktan snaga

Í skemmtilegu myndbandi frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur er sögð sagan af því þegar Dagur B. Eggertsson kom í Norðmannalund í Heiðmörk til að fella Óslóartréð svokallaða, tréð sem Óslóarborg gefur Reykjavíkurborg og nú stendur ljósum prýtt á Austurvelli. Janus Bragi Jakobsson gerði myndbandið.

Myndbandið var birt á Facebook í tilefni af því að jólamarkaður Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur verið opnaður. Fylgst var með Degi borgarstjóra daginn sem hann kom til að fella Óslóartréð sem nú er alíslenskt tré en samt með norska tengingu. Á Íslandi er nú vaxið upp úrval gerðarlegra grenitrjáa svo lítil þörf er orðin fyrir innflutning slíkra trjáa með þeim kostnaði og umhverfisáhrifum sem því fylgir.

Allt frá árinu 1952 hefur tréð komið sjóleiðina frá Ósló en nú hefur nýrri hefð verið komið á. Borgarstjóri felldi tréð í lundi Norðmanna í Heiðmörk 12. nóvember og naut þar aðstoðar Sævars Hreiðarssonar, skógfræðings hjá félaginu. Með myndbandinu skrásetti Janus Bragi Jakobsson þennan skemmtilega dag þegar borgarstjóri kom til verksins og eins og það er orðað á vef SR gefur myndbandið innsýn í hátíðlegan hversdag í skóginum.

Meðal annars kemur fram í myndbandinu að merktur hefur verið snagi fyrir borgarstjórann þar sem hann getur hengt af sér skógarhöggsklæðnaðinn enda er hann orðinn árlegur gestur. Að sjálfsögðu er alls öryggis gætt, borgarstjóri fær þá kennslu í meðferð keðjusagar sem tilskilin er og notar allan nauðsynlegan öryggisbúnað. Ætlunin var að fella um 12 metra hátt tré og við mælingu reyndist tréð sem var valið vera rúmlega tólf metrar.

Skoða má jólamarkað SR í Heiðmörk á vefnum heidmork.is.