Fallinn er frá fyrir aldur fram Sigvaldi Ásgeirsson skógfræðingur, framkvæmda-stjóri Vesturlandsskóga og skógarbóndi á Vilmundarstöðum í Borgarfirði.

Sigvaldi kynntist fljótt skógræktarstörfum þegar hann fór að vinna ungur að árum í Fossvogstöð Skógræktarfélags Reykja-víkur. Að loknu stúdentsprófi hóf hann nám í félagsfræði við Háskóla Íslands en fljótlega varð skógræktaráhuginn yfirsterkari og Sigvaldi fór utan til Noregs í skógfræðinám við Norska Landbúnaðar-háskólann á Ási. Hann lauk þar námi vorið 1981 og fluttist þá strax heim til Íslands. Vann hann næstu árin sem verkstjóri hjá Skógrækt ríkisins, bæði á Hallormsstað og í Haukadal í Biskupstungum og síðar sem aðstoðarskógarvörður á Suðurlandi. Á þessum tíma tók hann þátt í að skipuleggja fyrstu skógræktarjarðir bænda á Suðurlandi og Vesturlandi sem var upphaf bændaskógræktar í þessum landshlutum. Árið 1990 var hann ráðinn sem sérfræðingur við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá og voru hans helstu verkefni tengd iðnviðarskógrækt sem nú á tímum er meginstoð viðarnýtingar á Íslandi. Þegar líða tók af aldarlokum lét Sigvaldi draum sinn verða að veruleika, gerðist sjálfs síns herra í eigin skógrækt og keypti jörðina Vilmundarstaði í Reykholtsdal þar sem hann stundaði í frístundum sínum öfluga skógrækt á skóglausu landi í hlíðum Reykholtsdal. Ekki lét hann eigin skógrækt nægja heldur var hann einn af þeim sem lagði grunninn af stofnun Vesturlandsskóga þar sem hann síðar var ráðinn framkvæmdarstjóri og sem hann gegndi til æviloka.

Sigvaldi var alla tíð öflugur í félagsstarfi  sem og pólitísku starfi. Þó stendur upp úr baráttuvilji hans til að gera veg skógræktar á Íslandi sem mestan og var hann vakinn og sofinn yfir því mikilvæga verkefni. Sýndi hann ætíð faglegt innsæi og rökfestu þegar kom af því að sýna fram á ágæti skógræktar í ræðu og riti. Liggja eftir hann margar kröftugar og vandaðar greinar enda var hann ritfær mjög.

Sigvaldi fór ekki troðnar slóðir heldur hafði ætíð frumkvæði af nýrri hugsun sem drifin var áfram ekki síst af jákvæðni og óbilandi skógræktarhugsjónum. Hann var vinamargur, lét sig aldrei vanta á skógræktarsamkomur og fundi og var þá hrókur alls fagnaðar. Margir sakna hans sárt, ekki síst innan skógargeirans þar sem hans ævistarf og hugsjónir lágu.

Það má segja að hinstu stundir Sigvalda séu táknrænar fyrir baráttu hans fyrir skógum Íslands en hann lést eftir að hafa barist við að slökkva sinueld sem ógnaði skóginum sem hann hafði ræktað með eigin höndum. Í kjölfarið  veiktist hann alvarlega og varð bráðkvaddur á heimili sínu.

Skógrækt ríkisins og skógræktarmenn um land allt senda nánustu aðstandendum og fjölskyldu Sigvalda sínar dýpstu samúðarkveðjur. Sigvalda er sárt saknað og verður lengi minnst meðal skógræktarfólks.


Bálför fer fram frá Neskirkju þriðjudaginn 26. mars kl. 15:00. Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vildu minnast hans er bent á reikning nr. 0372-22-000256, kt. 150954-4449, í vörslu Margrétar Ásgeirsdóttur. Söfnunarfé verður varið til áframhaldandi skógræktar á Vilmundarstöðum í Reykholtsdal.