Sænskir kratar veðja á störf í skógargeiranum

Fréttastofa sjónvarpsstöðvarinnar TV4 í Svíþjóð segir frá því að sænski sósíaldemókrataflokkurinn Socialdemokraterna vilji fjölga mjög störfum í skógariðnaðinum. Haft var eftir Stefan Löfven, leiðtoga flokksins, að loknum blaðamannafundi að þetta markmið væri angi af því markmiði að hvergi í Evrópusambandinu skyldi verða minna atvinnuleysi árið 2020 en í Svíþjóð.

„Skógurinn er græna gullið okkar,“ segir Stefan Löfven í viðtali við TV4. „Markmiðið er að skapa fleiri störf um leið og við drögum úr útblæstri gróðurhúsalofts. Þetta verður ekki hamlandi heldur vaxtarhvetjandi á leið okkar til grænnar framtíðar.“

Löfven segir að til að minnka megi nettólosun Svía verði þeir að skipta um orkugjafa. Þar komi skógarnir til skjalanna. Vandinn sé hins vegar sá að fjárfestar þori ekki að leggja fé í greinina og því verði að skapa henni traustan grundvöll og setja stefnu um hvernig skógarnir skuli þróast og hvernig innleiða skuli nýja orkugjafa.

Milljarð í „græna gullið“

Löfven segir að meðal annars vilji sænsku sósíaldemókratarnir leggja einn milljarð sænskra króna í verkefni sem unnið verði með atvinnulífinu, að búa til ný störf með nýsköpun sem tengist aðgerðum í loftslagsmálum. Hann segir að flokksmenn sjái fyrir sér að skapa megi 25.000 ný störf í skógrækt og úrvinnslu skógarafurða fram til ársins 2020. Flokkurinn vilji að alvöru stefnumörkun af þessum toga sé líka mikilvæg til að ná megi markmiðum í baráttunni við loftslagsbreytingar. Skógarnir geti líka gefið af sér meira hráefni án þess að slaka þurfi á þeim miklu kröfum sem Svíar geri um vernd náttúrunnar.

Hefur trú á trjánum

„Við teljum rétt að auka notkun timburs í byggingariðnaði og höfum trú á lífeldsneytinu,“ segir Löfven. Flokkurinn vilji gjarnan sjá að störfum í skógargeiranum fjölgi um 25.000, sem fyrr greinir, og það sé vitað að viðarmyndun í sænsku skógunum sé meiri en sá viður sem nú er tekinn úr skógunum. Skógarnir séu líka um alla Svíþjóð og ný störf í skógargeiranum verði því dreifð um allt landið. „Við ætlum að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og hætta að vera jafnháð olíunni og við höfum verið,“ segir leiðtogi Socialdemokraterna, Stefan Löfven.

Sjá fréttina á vef TV4