Hópur sjálfboðaliða frá Seeds-samtökunum var að störfum í hálfan mánuð við endurbætur á stígum í Hal…
Hópur sjálfboðaliða frá Seeds-samtökunum var að störfum í hálfan mánuð við endurbætur á stígum í Hallormsstaðaskógi. Hér sést hópurinn ásamt Bjarka Sigurðssyni verkstjóra

Ungverskur skógfræðinemi skrifar um vindfall í skógi á Íslandi og náttúrulega endurnýjun eftir vindfall

Tjaldgestum fjölgaði mikið í Hallormsstaða­skógi í sumar og í september voru gisti­nætur um 50% fleiri en í fyrra. Vel hefur viðrað til útiverka í skóginum í haust og senn verður farið að fella jólatré. Ung­versk­ur skógfræðinemi dvelur nú á Hallormsstað og vinnur að meistaraverkefni um vindfall í skógi á Íslandi og náttúrulega endurnýjun skóga á svæðunum eftir vindfall.

Vel hefur viðrað til útiverka í skógi í meira og minna  allt haust þó rignt hafi töluvert síðustu vikur. Óvenju mikið birkiryð var í Hallormsstaðaskógi eins og víða um fjórðunginn. Því aflaufgaðist birkiskógurinn nánast á einni hvassviðrishelgi. Fleiri gestir voru á tjaldsvæðunum í skóginum en árið á undan. Um 50% aukning var á gistináttum í september miðað við árið í fyrra. Að meðaltali er um 32% aukning erlendra gesta á tjaldsvæðunum miðað við síðustu tvö ár.

Eins og undanfarin tvö ár komu sex manns frá sjálfboðaliðasamtökunum Seeds, og unnu í hálfan mánuð við endur­bætur á göngustígum í skóginum.


Unnið hefur verið við grisjun í birki­skóg­in­um og felling á birkiskerm ofan af yngri grenigróðursetningum. Birkið er að mestu nýtt í eldivið. Jafnhliða hefur verið unnið við flettingu á grisjunarefni úr lerki og ösp. Í október dvöldu í skóginum í þrjár vikur þrír danskir starfsnemar í skógræktarnámi. Þeir unnu m.a. við gróðursetningu í lerkireit sem var gjörfelldur árið 2016. Einnig unnu þeir við að undirbúa svæði þar sem áður voru ræktuð jólatré og búið var að nýta til fulls. Fjallaþini verður endurgróðursett í reitinn næsta sumar.

Á Hallormsstað dvelur nú ungverskur skóg­fræðinemi á lokaári, István György Deák. Hann vinnur að meistaraverkefni við skóg­ræktarháskólann í heimalandi sínu og skrifar um vindfall í skógi á Íslandi og náttúrulega endurnýjun skóga á svæðunum eftir vindfall.             

Á næstunni byrjar vinna við fellingu á torgtrjám og heimilistrjám. Þau eru að mestu seld í fjórðungnum en heimilistré eru send til Sólskóga á Akureyri.


Í þessum reit voru áður ræktuð jólatré en þau hafa nú öll verið nýtt. Svæðið hefur nú
verið búið undir endurgróðursetningu og verður settur í það þinur til áframhaldandi
jólatrjáaræktar. Ungu trén njóta skjóls af eldri skógi til vaxtar.


Texti og myndir: Þór Þorfinnsson