Hartnær 30.000 rúmmetrar á næstu 5 árum

Ná mætti allt að 30.000 rúmmetrum af trjáviði næstu fimm árin með grisjunum í helstu þjóðskógum landsins. Í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins 2013 er í fyrsta sinn gefin skýrsla um tiltækt grisjunarmagn í þeim skógum sem eru í umsjón Skógræktarinnar og kallaðir eru þjóðskógar.

Skýrsluna skrifuðu fjórir skógfræðingar, Lárus Heiðarsson skógræktarráðunautur, Rúnar Ísleifsson, sem nú er skógarvörður á Vöglum, Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, og Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi. Ákveðið var á fundi skógarvarða og ráðunauta SR í ágúst 2013 að gera áætlun til 5 ára um það magn timburs sem mögulegt væri að höggva í þjóðskógunum. Bæði var þetta gert til að geta gefið markaðnum upplýsingar um mögulegt magn sem væri til sölu og til að verktakar gætu gert áætlanir, til dæmis þeir sem hygðust kaupa dýr tæki til grisjunar og skógarhöggs.

Fram kemur í skýrslunni að tæpir 20.000 rúmmetrar af grisjunarviði séu tiltækir á greiðfærum svæðum þar sem t.d. er hægt að athafna sig með skógarhöggsvélum. Mest er tiltækt á Suður- og Norðurlandi, um 10.000 rúmmetrar, tæplega 6.000 á Vesturlandi og ríflega 4.600 á Austurlandi.

Rétt er að taka fram að í þessum tölum er ekki allur sá viður sem tiltækur er úr öðrum skógum, til dæmis skógum bænda eða skógræktarfélaga. Heildarmagnið á landinu er því mun meira.

Nánari upplýsingar á bls. 21:

 


Frá grisjun á Miðhálsstöðum í Öxnadal í júní 2014.

Myndir og texti: Pétur Halldórsson