Vill að ráðamenn heimsins fái vönduð skógvísindaleg gögn

Fréttatilkynning:
Alþjóða skógvísindasambandið IUFRO
(International Union of Forest Research Organizations)

Salt Lake City/Vín 11. október 2014 - Niels Elers Koch lét af embætti forseta IUFRO á nýafstaðinni heimsráðstefnu samtakanna sem lauk í Salt Lake City í Bandaríkjunum 11. október. Við tók suður-afríski prófessorinn Mike Wingfield, fyrsti forstöðumaður FABI, stofnunar innan háskólans í Pretoríu sem fæst við líftækni í skógrækt og landbúnaði.

Wingfield var kosinn forseti á fundi sem haldinn var á síðasta degi heimsráðstefnunnar í Salt Lake City. Forveri hans, danski prófessorinn Niels Elers Koch, hafði þá setið í embætti í fjögur ár. Alþjóða skógvísindasambandið IUFRO er einu heimssamtökin sem helga sig skógvísindum og tengdum fræðum.

Í ávarpi sínu við forsetaskiptin fór fráfarandi forseti yfir kjörtímabil sitt og sagði að góður árangur hefði náðst í að efla alþjóðlegt samstarf í skógvísindum með samhentri vinnu starfsfólks í höfuðstöðvum IUFRO, stjórn þess og framkvæmdaráði. Meðal annars hefði verið haldin fyrsta svæðisráðstefnan fyrir Afríku í Kenía 2012 og fyrir Rómönsku-Ameríku í Kostaríka 2013. Hann fagnaði því líka hversu vel hefði tekist til við að efla samstarf IUFRO við alþjóðasamtök skógfræðinema, IFSA, og fleiri alþjóðleg sambönd.


Nýi forsetinn, Mike Wingfield, sagði í sínu ávarpi að starf hans innan IUFRO hefði gefið honum mikið fram að þessu og vonaðist hann til að sú yrði reynsla annarra, sérstaklega allra þeirra skógfræðinema sem nú væru við nám hvarvetna í heiminum. Hann minntist sérstaklega á gott samband IUFRO við áðurnefnd alheimssamtök skógfræðinema, IFSA, og lýsti vilja sínum til að styrkja þau bönd enn frekar á komandi árum. Þá minnti forsetinn nýi á skyldur IUFRO sem alþjóðlegs tengslanets fyrir skógfræðirannsóknir, að reiða fram áreiðanleg og traust gögn sem nýtast myndu þeim sem taka mikilvægar ákvarðanir um þann viðkvæma heim sem við búum í og þær ógnir sem að honum steðja. Hann bætti við að aldrei í sögunni hefði heimsbyggðin átt jafnmikið undir auðlindum jarðarinnar og allar þessar auðlindir mætti á einhvern hátt tengja skógum og skógarnýtingu. Wingfield undirstrikaði ómissandi hlutverk skóga á leiðinni til sjálfbærrar framtíðar á jörðinni.

Michael (Mike) Wingfield er prófessor við háskólann í Pretoríu í Suður-Afríku og fyrsti forstöðumaður stofnunar við háskólann, FABI, sem sinnir líftækni í skógrækt og landbúnaði. Hann hefur tekið þátt í starfi IUFRO í yfir 30 ár og verið varaforseti samtakanna frá 2010. Sem vísindamaður fæst hann einkum við trjáheilsu og hefur stýrt rannsóknum á óværu og sjúkdómsvöldum á trjám. Wingfield er meðlimur í ýmsum vísindasamtökum, þar á meðal Royal Society of South Africa og American Phytopathological Society (pythopathology=trjásjúkdómafræði). Hann hefur hlotið heiðursdoktorsnafnbót við háskóla í Bresku-Kólumbíu, Kanada og Norður-Karólínu og honum hlotnaðist æðsta vísindanafnbót Afríkusambandsins, Kwame Nkrumah Scientific Award, á síðasta ári.

Heimsráðstefna IUFRO í Salt Lake City í Utah var sú tuttugasta og fjórða í sögu samtakanna. Slagorð hennar var „Sustaining Forests, Sustaining People: the Role of Research“, sem útleggjast gæti sem „Ræktun skóga, ræktun lýðs: hlutverk rannsókna“. Markmið ráðstefnunnar var að vekja athygli á þeirri vísindalegu þekkingu sem við búum yfir í skógfræðum um þessar mundir og hvernig vísindafólk á þessu sviði fæst við ýmis úrlausnarefni og tækifæri sem snerta sjálfbæra þróun. IUFRO skipulagði ráðstefnuna í boði bandarísku ríkisskógræktarinnar, U.S. Forest Service, í samvinnu við þrenn samtök á sviði skógvísinda vestan hafs, NAUFRP sem er landsamband bandarískra skógvísindastofnana (National Association of University Forest Resources Programs), SAF sem eru samtök skógfræðinga (Society of American Foresters) og kanadísku skógfræðistofnunarinnar CIF/IFC (Canadian Institute of Forestry/Institut Forestier du Canada).

PDF-skrá með fréttatilkynningu IUFRO
24. heimsráðstefna IUFRO 2014
5.-11. október 2014, Salt Lake City, Utah, Bandaríkjunum
Upplýsingar um dagskrá: http://iufro2014.com/
Fréttir og fjölmiðlar: http://iufro2014.com/news/

Fjölmiðlafulltrúi:
Gerda Wolfrum, International Union of Forest Research Organizations (IUFRO),
wolfrum(at)iufro.org

Texti/þýðing: Pétur Halldórsson