Meistaraprófsfyrirlestur Brynju Hrafnkelsdóttur fer fram á Hvanneyri fimmtudaginn 7. maí kl. 14:00 í Ársal, 3. hæð í Ásgarði. Heiti ritgerðarinnar er “Þéttleiki og fjölbreytileiki sveppróta í misgömlum birki- og lerkiskógum”. Prófdómari er Úlfur Óskarsson, lektor við LBHÍ. Leiðbeinandur eru Dr. Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við LbhÍ og Edda Sigurdís Oddsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá.

Þéttleiki, fjölbreytileiki og smitmagn útrænnar svepprótar var rannsakaður í mólendi og misgömlum birki- (Betula pubescens) og lerkiskógum (Larix sibirica) á Fljótsdalshéraði. Þetta var annarsvegar gert með því að taka jarðvegssýni á svæðunum og rækta í þeim svepprótalausar lerki- og birkiplöntur í svokölluðum örvistum í sex mánuði og fylgjast með hvaða svepprætur mynduðust á þeim. Hinsvegar voru rótarsýni tekin úr misgömlum lerkiteigunum og svepprótin á þeim rannsökuð.

Megin tilgangur þessa verkefnis var að auka skilning á þeim breytingum sem eiga sér stað á útrænni svepprót í jarðvegi þegar skógur er ræktaður á áður skóglausu landi og kanna hvort að munur sé á magni sveppróta á innlendri trjátegund (birki) og innfluttri trjátegund (lerki). Einnig var markmiðið að kanna samband svepprótar við næringarefnaframboð og aðra umhverfisþætti sem einnig voru mældir í mólendinu og skógunum.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að: a) Minni svepprót myndaðist á þeim plöntum sem gróðursettar voru í skóglaust land heldur en á þeim plöntum sem gróðursettar voru í skógarjarveg. b) Svepprótarsmit fyrir birki var til staðar í lerkiskógunum og svepprótarsmit fyrir lerki var til staðar í birkiskógunum á Fljótsdalshéraði. c) Örvistir reyndust gott rannsóknatæki til að meta þéttleika svepprótasmits í skógi. d) Fjölbreytileiki og þéttleiki svepprótar var marktækt meiri á innlendu trjátegundinni (birki) heldur en þeirri innfluttu (lerki). Þetta bendir til að enn vanti mikilvægar sambýlistegundir í íslenskri vist fyrir lerki. e) Þéttleiki og fjölbreytileiki svepprótar á lerki breyttist mikið með aldri skóganna. Þéttleiki jókst í fyrstu með aldri, en þegar skógurinn var í kringum 20-30 ára dró aftur úr þéttleika svepprótar. Þessar breytingar voru beintengdar magni köfnunarefnis og fosfórs í efri jarðvegslögum sem og sýrustigi jarðvegs.