Vinna við skipurit hefst á næstu vikum

Á fjórða fundi stýrihóps um sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt þriðjudaginn 5. apríl var farið yfir fyrstu drög að stefnumótunarskjali fyrir nýja sameinaða skógarstofnun. Slíkt skjal er forsendan fyrir því að hægt verði að hefja fyrir alvöru mótun skipurits fyrir hina nýju stofnun sem meiningin er að heiti Skógræktin. Bandormur hefur verið afgreiddur í ríkisstjórn og úr þingflokkum framsóknar- og sjálfstæðismanna og liggur nú fyrir Alþingi.

Sem kunnugt er hefur starfsfólk stofnananna sem til stendur að sameina unnið mikið starf undanfarnar vikur við að greina starfsemina og draga fram helstu áherslur nýrrar stofnunar og þau málefni sem vinna skuli að á komandi árum. Þrír starfshópar fjölluðu sérstaklega hver um sitt málefni, innri mál, ytri mál og fagleg mál, en síðan var haldinn starfsmannafundur með þjóðfundarsniði þar sem starfsemin var greind frekar og safnað saman ábendingum og hugmyndum. Jafnframt hafa nú allir starfsmenn sem þegið hafa verið teknir í einkaviðtal þar sem þeim gafst kostur á að tala í trúnaði um jákvæða jafnt sem neikvæða þætti í starfi sínu og sinnar stofnunar ásamt því að leggja fram sína sýn á hina nýju stofnun og væntingar til hennar.

Ráðgjafar hjá Capacent halda utan um þessa vinnu og eru byrjaðir að vinna úr þeim miklu gögnum sem safnast hafa við greiningar- og stefnumótunarvinnuna undanfarnar vikur. Á fundi stýrihópsins á þriðjudag var lagt fram uppkast að skjali þar sem fjallað er um hlutverk Skógræktarinnar, þau gildi sem stofnunin skuli hafa að leiðarljósi og framtíðarsýnina sem unnið verði eftir. Jafnframt eru í skjalinu drög að stefnuáherslum nýrrar stofnunar. Fulltrúar í stýrihópnum settu fram athugasemdir sínar og hugmyndir að breytingum og viðbótum við skjalið og þeirri vinnu verður haldið áfram á næsta fundi sem væntanlega verður í næstu viku.

Þegar stefnuskjalið er farið að taka á sig endanlega mynd verður fyrst mögulegt að hefja fyrir alvöru vinnu við að móta skipurit nýrrar stofnunar. Gert er ráð fyrir að það verði undir lok aprílmánaðar eða í byrjun maí en nú er stefnt að því að stýrihópurinn ljúki störfum fyrir 1. júní.

Texti: Pétur Halldórsson