Þann 2. desember s.l. var haldið málþing í húsakynnum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Tilgangurinn með málþinginu var að kalla saman þá aðila innan háskólasamfélagsins sem hafa sinnt fræðslu og menntun á sviði útináms og upplifunar og kortleggja með því umfang, áherslur og árangur þess starfs. Markmiðið var að finna leið innan háskólanámsins til að efla fræðigreinina útinám svo auðveldara væri að gefa kost á framhaldsnámi og rannsóknum á meistarastigi.

Settar voru upp tvær málstofur sem keyrðar voru samtímis. Í annarri voru fyrirlestrar sem tengdust útivist og ferðaþjónustu en í hinni fræðilegri þættir, s.s. rannsóknir og skilgreiningar á útinámi og kennslu í skólastarfi. Aðalfyrirlesari málþingsins var Bob Henderson frá McMaster University í Kanada og fjallaði hann um reynslu sína í útinámskennslu með ungu fólki og fyrirkomulag þess náms.

Lesið í skóginn stóð fyrir þremur síðustu fyrirlestrunum á málþinginu. Margrét Lára Eðvarðsdóttir, kennari við Krikaskóla í Mosfellsbæ og Ása Erlingsdóttir, kennari við Varmalandsskóla Borgarfjarðar, Varmalandi, kynntu verkefnabanka Lesið í skóginn (sem nú er í vinnslu), uppbyggingu og fyrirkomulag á skogur.is. Verkefnisstjóri Lesið í skóginn sagði frá gerð nytjaáætlana fyrir grenndarskóga og hvernig nota má kortagrunna til að skipuleggja og framkvæma samþætt útinám í grenndarskógi. Þá kynnti verkefnisstjóri niðurstöður könnunar á notkun grenndarskóga í skólastarfi í Reykjavík og dró fram þá þætti sem staðfesta þróun útinámsins, stjórnunarlega og faglega.

Mikill áhugi var meðal málþingsgesta á skógartengdu útinámi og voru margir sem vildu vita meira um einstaka þætti. Það má því segja að tíu ára þróunarstarf Lesið í skóginn sé e.t.v. að skila sér nú í markvissu og faglegu skógartengdu útinámi.Mynd og texti: Ólafur Oddsson