Sverleiki trjánna er mældur í brjósthæð.
Sverleiki trjánna er mældur í brjósthæð.

Íslensk skógarúttekt aflar dýrmætra upplýsinga

Sérfræðingar Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá fara nú um landið og vitja mæliflata sem settir hafa verið niður víðs vegar til að fylgjast með trjágróðri á landinu í verkefninu Íslenskri skógarúttekt. Á dögunum var tekinn út mæliflötur í landi Hvamms í Eyjafjarðarsveit. Þar vaxa alaskaaspir og hafa dafnað vel frá því að síðast var mælt fyrir fimm árum.

Hvammur er fyrirmyndarjörð í Eyjafjarðarsveit og með sanni má segja að þar sé stundaður skógarlandbúnaður. Akrar og tún eru umvafin skógi eða skjólbeltum og skógurinn er beinlínis nytjaður í þágu búpeningsins því tré úr skóginum eru kurluð á staðnum og kurlið borið undir kýrnar í fjósinu. Þá hefur einnig verið grisjað nokkuð á undanförnum árum og viðurinn seldur til kurlunar.

Bjarki Þór Kjartansson, landfræðingur á Mógilsá, var á ferð í Eyjafirði 1. júlí. Honum til aðstoðar var nýútskrifaður sænskur skógfræðingur, Kajsa Matsson, sem starfað hefur við skógmælingar hjá sænsku skógmælingastofnuninni, Riksskogstaxeringen, og kom til Íslands til að auka við starfsreynslu sína.

Mæliflöturinn sem vitjað var í Hvammi er nokkru ofan við bæinn og á leiðinni þar upp eftir er áberandi hversu vel skógurinn skýlir ræktarlöndum. Þar sem skjólið er mest er gróðurinn gróskumestur eins og nærri má geta. Þarna eru mjög fallegir lerkireitir sem hafa verið grisjaðir fyrir nokkrum árum, einnig reitir með sitkabastarði og fleiri tegundum, meðal annars alaskaösp í mjög góðum vexti.

Verkefnið Íslensk skógarúttekt er meðal annars til þess gert að fylgjast með kolefnisbúskap íslenskra skóga og árlega er tíundað fyrir stjórnvöldum hversu mikið hefur bundist af koltvísýringi í skógunum. Margt fleira er þó mælt en hæð og sverleiki trjánna. Útlit þeirra er metið og heilbrigði, tekin jarðvegssýni og vísitegundir greindar innan fernings á ákveðnum stað til að fylgjast með þróun tegundafjölbreytni í skógarbotni.

Í Skandinavíu er sambærileg gagnasöfnun um skóga mjög rótgróin og hefur verið stunduð reglulega í nokkuð á aðra öld. Þar af leiðir að vinnubrögðin eru sömuleiðis rótgróin og þar hefur tölvutæknin ekki tekið algjörlega við hefðbundnum, handvirkum skráningaraðferðum. Hér á Íslandi er þessi gagnasöfnun svo ung grein að við stukkum beint inn í tækniöldina. Af því er nokkuð skemmtileg saga.

Á tímum kommúnistastjórnanna í Austur-Evrópu tóku tékkneskir skógfræðingar upp á því að fikta við forritun. Sagan segir að þeir hafi ekki haft allt of mikið að gera og því haft tíma til að fikta við þessa nýju og spennandi tækni. Út úr þessu fikti þróaðist sá mælibúnaður sem sjá má á meðfylgjandi myndum. Búnaðinum er komið haganlega fyrir á léttu og handhægu statífi. Efst er halla- og fjarlægðarmælir sem nýtist m.a. til hæðarmælinga á trjám. Þar fyrir neðan er staðsetningartæki með áttavita og GPS, því næst mælingatölva með snertiskjá. Í tölvunni er hugbúnaður Tékkanna sem gerir kleift að skrá fljótt og vel ótal upplýsingar um mæliflötinn og þegar heim er komið þarf ekki annað en keyra gögnin yfir í gagnagrunn.

Jarðvegssýnin geta gefið mikilvægar upplýsingar um efnainnihald jarðvegsins og þær breytingar sem verða þegar skógur vex upp þar sem áður var skóglaust land.

Í Íslenskri skógarúttekt eru mælifletir valdir eftir skipulögðu kerfi um allt land, þeir heimsóttir, trjágróður mældur og umhverfi lýst. Alls eru tæplega 1.000 mælifletir mældir  á 5 ára tímabili. Slíkar vettvangsúttektir fóru í fyrsta sinn fram sumarið 2005 og fyrstu mælingu allra mæliflata lauk árið 2009. Annarri mælingu þeirra lauk á síðasta ári og nú er sú þriðja hafin. Allir mælifletir sem lagðir voru út 2005-2009 hafa með öðrum orðum verið mældir tvisvar en nýir fletir hafa líka bæst við vegna nýrra skógræktarsvæða.

Á hverjum mælifleti eru mæld öll tré innan ákveðins flatarmáls. Hvert tré fær sitt auðkenni og er mælt á 5 ára fresti. Verði breyting innan flatarins milli mælinga, t.d. vegna grisjunar eða aukinnar gróðursetningar, kemur það fram í mælingum. Á þennan hátt fæst vitneskja um raunvöxt skóga, bæði hvað varðar hæð/lífmassa og flatarmál. Að auki eru gerðar gróðurgreiningar og jarðvegssýni tekin til kolefnismælinga. Gögnin sem safnast eru líka notuð til að reikna út kolefnisbindingu íslenskra skóga sem fyrr segir

Mælingarnar á mælifletinum í Hvammi sýna að þar hefur öspin vaxið vel undanfarin fimm ár og áfallalítið. Mæliflöturinn sjálfur er í grasgefnum bolla og í góðu skjóli skógarins í kring. Reiturinn er nokkuð gisinn og hafa trén því gott vaxtarrými sem skilar sér í góðum þvermáls- og hæðarvexti.

Alaskaöspin var líklega gróðursett 1993. Á þessum 200 fermetra mælifleti stendur nú 21 tré sem uppreiknast sem 1.050 tré á hektara en það er nokkuð gisið. Vanalega eru yfir 2.000 tré á hektara í aspargróðursetningum sem þessum. Hæðarvöxtur síðustu fimm ára var frá 90 cm aukningu og mest 2,91 m en að meðaltali um 2 metrar á fimm árum. Þvermálsvöxtur stofna í brjósthæð (1,3m) var frá 1,1 cm og upp í 5,2 cm með meðaltal kringum 3 cm.

Á mælistikunni sem Kajsa stendur við er endurskin sem tækin nema til að sannreyna m.a. staðsetningu trésins miðað við punktinn í mælifletinum.">

Lífmassi: Standandi lífmassi er 1,7 tonn á hektara af hreinu kolefni, var 400 kg við síðustu mælingu. Hlaupandi fimm ára viðbót af lífmassa er um 250 kg á hektara á ári.

 

Rúmmál: árið 2010 voru um 2,7 rúmmetrar af bolviðistandandi á hektara í mælifletinum en eftir mælingu árisns 2015 eru þeir um 11,8. Hlaupandi rúmmálsaukning síðustu fimm ára er því 1,82 rúmmetrar á hektara á ári.

Mælifletirnir eru hringlaga með 7,98 metra radíus sem gefur 200 fermetra flöt. Nákvæm stærð mæliflatarins er mikilvæg til að framreikna mæld gildi yfir á flatarmálseiningu.

Ekki eru merkjanlegar breytingar á gróðurfari í mælifletinum á síðustu árum en að fimm árum liðnum verður þessi mæliflötur heimsóttur aftur og mælingar endurteknar. Líklegt er að í framtíðinni verði merkjanlegar breytingar á botngróðri skógarins.

Rétt er að taka fram að hver og einn mæliflötur er ekki bein úttekt á einstökum skóglendum einstaklinga heldur er hér um nokkurs konar slembival að ræða. Gögn úr hverjum og einum mælifleti eru notuð sem hluti af stórri heild til að reikna fram meðaltöl á landsvísu.

 

Bjarki horfir í halla- og fjarlægðarmælinn til að finna út hæð trjánna.
Í mælingabúnaðinum er líka staðsetningartæki.

Texti: Pétur Halldórsson og Bjarki Þór Kjartansson
Myndir: Pétur Halldórsson