Ég vildi minna ykkur á 10. Alþjóðlegu Lúpínuráðstefnuna sem haldin verður á Laugarvatni 19-24 júní. Nú fer hver að verða síðastur að skrá þátttöku sína á þessari ráðstefnu sem Skógrækt ríkisins stendur að, ásamt RaLa, NÍ, Landgræðslu ríkisins og Alþjóðalúpínusamtökunum (ILA).

Skoðið endilega www.rala.is/lupin til nánari fróðleiks!¨

Ég vil sérstaklega benda fólki að mæta á fyrsta ráðstefnudaginn (20. júní) þegar mest verður fallað um íslenskar rannsóknir og hvernig nota má lúpínur í landgræðslu og skógrækt, svo verður mjög skemmtilegur ferðadagur um Suðurland með sameiginlegum kvöldverði á eftir (21 júní).

Ráðstefnugjaldið er 31.200 (fyrir utan fæði og gistingu), en einnig er hægt að kaupa aðgang að einstökum dögum á 15.000 daginn. Matur, kaffi og yfirlitshefti um erindi ráðstefnunnar er þá innifalið í gjaldinu.

Þáttöku verður að skrá hjá Ráðstefnum og fundum, Kópavogi, sími: 554 1400, sérstakt netfang: lupin@iii.is
(Ragnheiður Stefánsdóttir eða Diljá Gunnarsdóttir). Formlegum skráningum átti að vera lokið, svo MIKILVÆGT er að þig gerið þetta sem allra fyrst!!

Aðeins meira um ráðstefnuna:

Alþjóðalúpínusamtökin er félagsskapur vísindamanna, ræktenda og áhugamanna um lúpínur og stendur hann fyrir ráðstefnum um þessar plöntur með nokkura ára millibili. Fyrsta lúpínuráðstefnan var haldin í Perú árið 1980. Ræktun og rannsóknir á lúpínum hafa undanfarna ártugi að mestu beinst að einærum tegundum sem víðast hvar eru ræktaðar til frætekju, líkt og korntegundir. Umfangsmest um þessar mundir er lúpínurækt í Ástralíu en þar er hún stunduð á um einni milljón hektara lands. Óvíða er mikil ræktun stunduð á fjölærum lúpínum.

Efni ráðstefnunnar:
Á ráðstefnunni á Laugarvatni verður sérstök áhersla lögð á fjölærar lúpínur, vistfræði þeirra, nýtingu til landgræðslu og skógræktar, og útbreiðslu og áhrif í nýjum heimkynnum. Á fyrsta fyrirlestradegi ráðstefnunnar verður einkum fjallað um þessi efni. Á ráðstefnunni verða einnig flutt eða kynnt á veggspjöldum erindi um sjúkdóma sem herja á lúpínur, rætur og köfnunarefnisnám, erfaðfræði og kynbætur, lífefna- og lífeðlisfræði, jarðrækt, og fóðurfræði. Um 180 erindi hafa verið boðin á ráðstefnuna, frá yfir 130 einstaklingum sem koma frá 26 þjóðlöndum.

Ferðadagur:
Einum degi ráðstefnunnar verður varið til skoðunarferðar um Suðurland, þar sem m.a. verður komið við á svæðum þar sem alaskalúpína hefur verið sáð eða breiðst út. Höfuðstöðvar Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti verða skoðaðar og landbúnaður og náttúra sunnlenskra sveita kynnt ráðstefnugestum.

Erlendir gestafyrirlesarar:
Til ráðstefnunnar hefur verið boðið fimm erlendum fyrirlesurum. Vistfræðingurinn Roger del Moral frá Bandaríkjunum mun í inngangserindi ráðstefnunnar fjalla um landnám lúpínu á eyðilandi á St. Helens eldfjallinu í Washington-fylki, eftir eldgosið þar árið 1980. Hann hefur verið þar í fararbroddi vísindamanna við rannsóknir á framvindu á eldfjallinu. Norski grasafræðingurinn Eli Fremstad mun flytja erindi um sögu og útbreiðslu fjölærra lúpínutegunda í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Vistfræðingurinn Andrea Pickart frá Bandaríkunum mun í erindi fjalla um áhrif runnalúpínu þar sem hún hefur verið flutt í ný heimkynni innan Kaliforníu-fylkis. Hvernig reynt hefur verið að stemma stigu við útbreiðslu lúpínunnar og koma í veg fyrir að hún eyddi sérstæðum strandgróðri. Bresku plöntufræðingarnir, Janet I. Sprent og Keith R. Skene, munu í erindum sínum fjalla annars vegar um næringarnám úr jarðvegi hjá lúpínum og hins vegar um þróun og gerð klasaróta innan lúpínuættkvíslarinnar.