Blágresið blíða er nú komið aftur á Haukadalsheiðina fyrir tilstuðlan lúpínunnar. Eins er með ýmsar …
Blágresið blíða er nú komið aftur á Haukadalsheiðina fyrir tilstuðlan lúpínunnar. Eins er með ýmsar aðrar rammíslenskar plöntutegundir, grös, súrur, brönugrös og fleira. Nú hefur verið plægt í lúpínubreiður á heiðinni til að gróðursetja birki í stað birkis sem víkur vegna framkvæmda við Brúarvirkjun í Haukadal. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Ýmsar hefðbundnar íslenskar plöntutegundir hafa numið land á landi Skógræktarinnar á Haukadalsheiði síðustu árin í kjölfar uppgræðslu lúpínunnar á svæðinu. Þar spretta nú laukar og gala gaukar sem fyrir fáeinum áratugum var uppblásin auðn og svartur sandur.

Mótvægisaðgerðir vegna virkjunar

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, fór fyrir skömmu á Haukadalsheiði ásamt Hreini Óskarssyni, sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar í leit að landi til gróðursetningar. Þar á að setja niður 25-30 þúsund birkiplöntur í sumar sem mótvægisaðgerð vegna birkis sem eytt verður vegna framkvæmda við Brúarvirkjun í Haukadal. Verktakar hafa nú þegar hafist handa við gróðursetningu og er gert ráð fyrir að verkinu verði lokið í sumar. Lúpínubreiður eru plægðar og trjáplönturnar gróðursettar í plógförin til að gefa þeim ljós og rúm til að vaxa.

Í skógræktarlögum er kveðið á um að ef ryðja þurfi skóglendi við framkvæmdir svo sem vegagerð, húsbyggingar og virkjanir skuli rækta að minnsta kosti jafnmikið skóglendi á nýjum stað og það sem eytt er. Skógræktin mælist til þess við slík tilvik að slíkar mótvægisaðgerðir fari fram í nágrenni þess skóglendis sem eytt er. Haukadalsheiði var áður birkiskógur og því hæfir vel að gróðursetningin fari þar fram í þessu tilviki.

Landnám ýmissa tegunda í lúpínubreiðunum

Lúpínan hefur unnið mikið og nytsamlegt verk á Haukadalsheiði. Nú uppsker íslensk náttúra ríkulega fyrir tilstuðlan lúpínunnar því eins og sjá má á ljósmyndum sem Hreinn tók í ferð þeirra Trausta er ýmislegt farið að spretta í lúpínubreiðunum á Haukadalsheiði, svo sem grös, súrur og ýmsar blómplöntur. Til dæmis eru brönugrös áberandi í breiðunum og líka blágresi sem er skýrt merki um vaxandi grósku. Með öðrum orðum er ekki að sjá að lúpínan gerist einráð á heiðinni heldur miðlar hún af þeim næringarforða sem hún kemur upp í fátækum sandinum.

Á komandi árum og áratugum vex upp fjölbreytilegt skóglendi á Haukadalsheiði og gera má ráð fyrir því að birkið sái sér þar út í vaxandi mæli. Eins má búast við að fjölbreytni haldi áfram að aukast í lífríkinu, bæði meðal plantna og dýra. Skordýralíf er vaxandi og fuglalíf sömuleiðis. Trausti segir að tegundum eins og skógarþresti, hrossagauk og fleirum fari þar mjög fjölgandi. Ef Íslendingum ber gæfa til að stórauka landgræðslu og skógrækt til að vinna gegn loftslagsbreytingum má búast við að kjörlendi ýmissa fuglategunda muni stækka að mun. Á nýjum landgræðslusvæðum verða til ný búsvæði fyrir berangursfugla eins og lóu og spóa en í nýju skóglendi eiga skógarfuglarnir sín tækifæri til fjölgunar.

Skógarnir líta vel út

Aðspurður um ástand skóganna á Suðurlandi í sumar segir Trausti að mjög góð þrif séu í skógunum að öllu öðru leyti en því að talsvert beri á lerkibarrfelli í Haukadal. Trúlega sé það vegna þess hve sumarið er blautt í landshlutanum. Auk birkisins sem áður er nefnt segir Trausti að meiningin sé að gróðursetja aðrar tegundir í öðrum reitum í Haukadal og þar á meðal er gróðursetning til kolefnisbindingar upp í samning við CocaCola á Íslandi. Fleiri slík verkefni séu í bígerð og sömuleiðis verði gróðursettar um 200.000 trjáplöntur í löndum Skógræktarinnar. Mest fari niður í Haukadal og Skarfanesi en töluvert líka að Mosfelli, í Þjórsárdal og á Tumastöðum svo nokkuð sé nefnt.

Trausti segir nokkuð vel hafi gengið að fá verktaka til starfa við gróðursetningu en huga þurfi að því að fá ungt fólk til starfa við skógrækt, ekki síst ef meiningin er að stórauka gróðursetningar á landinu næstu árin. Gott gróðursetningarfólk sem getur haldið sig að vinnu sé ekki gripið upp af götunni. Starfsnemar eru mikilvægur vinnukraftur í þjóðskógunum og undanfarna mánuði hafa verið tveir Írar að störfum á Suðurlandi, harðduglegir og jákvæðir ungir menn. Þeir eru nú að ljúka dvöl sinni hér en í staðinn kemur einn danskur nemi.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson