Árið 1956 var Skógræktarfélag Reykjavíkur 10 ára.  Í afmælisriti félagsins ritar Hákon Guðmundsson grein sem hann kallar "Lundurinn í Ártúnsbrekku".  Þar er sagt frá trjálundi Sveinbjarnar hæstaréttarlögmanns Jónssonar í Ártúnsbrekku.  Þetta er sami lundurinn og sagt er frá í frétt um 20 metra hátt sitkagreni í Reykjavík á því herrans ári 2002.  Við skulum staldra við á nokkrum stöðum í greininni: 

"Reykjavík hefur tekið miklum stakkaskiptum hin síðari árin og er nú á góðri leið með að breytast úr gráköldum bæ í þá grænu og gróðurríku borg, sem sæmir að rísi hér á hæðunum sjö, með svipmikinn fjallahring að baki og til hliða, en blátt hafið við fætur sér? Það mun hafa verið árið 1930, sem Sveinbjörn nam land þarna.  Var þá öll Ártúnsbrekkan jafn snauð að trjágróðri og skíðabrekkan er nú að undan skildum fáeinum reynitrjám, sem þar höfðu verið gróðursett nokkru áður.  Í fyrstunni var það einkum reynir og birki og reyndar ýmsar víðitegundir, sem Sveinbjörn gróðursetti.  En árið 1937 fékk hann nokkrar greniplöntur og tók hann ástfóstri við þá trjátegund, sem síðan hefur haldist.  Hefur grenitrjám Sveinbjarnar fjölgað jafnt og þétt síðastliðin 19 ár, og svo vel hefir þeim fallið vistin hjá honum, að varla munu finnast lengri árssprotar hér á landi en þeir, sem mældir hafa verið í lundi hans. 
Þrátt fyrir dálæti Sveinbjarnar á grenitrjánum, finnst þó í lundi hans fjöldi annarra trjátegunda.  Ef komið er að landi hans neðan frá rafstöðinni, mæta fyrst auganu raðir af birki og víði.  Að baki þeim á sléttri grundinni blasir við fylking beinvaxinna og vörpulegra reynitrjáa, en ofar og nær brekkunni er höfuðprýðin, greinafögur og vel vaxin grenitré, blágreni og sitka.  Eru þau mörg tvær til þrjár mannhæðir og mun hið hæsta vera 6,70 metrar"?
(Sjá mynd). "Það er mikið og gott verk, sem þarna hefur verið unnið, og hefur Sveinbjörn hæstaréttarlögmaður eigi aðeins afrekað það, að þarna hefur risið upp trjálundur til prýði og unaðar fyrir þá, sem hans njóta og fram hjá fara, heldur hefur hann einnig sýnt, hvað jarðvegur bæjarlandsins getur látið í té, ef honum eru sköpuð tækifæri.  Og með fordæmi sínu hefur Sveinbjörn vísað öðrum veginn og sýnt í verki, hvað gera má til gagns og gleði með gróðri og ræktun, ef vilji og áhugi eru fyrir hendi". 

Síðan lýkur Hákon Guðmundsson grein sinni þannig:  "Það má ekki gleymast, að borg sem ætlar sér að ala upp hrausta og heilbrigða borgara, kemst ekki af með húsgrunni eina, götur og steinlögð torg.  Hún þarnast ekki síður þess lífslofts, sem gróðrabelti og trjálundir veita umhverfi sínu.  Takmark Reykvíkinga hlýtur því að verða það, að breyta hæfilega miklum hluta bæjarlandsins í iðagræna trjálundi til skóls, hollustu og fegurðar fyrir framtíðarborgara höfuðstaðarins.  Þar hefur Sveinbjörn vísað okkur veginn.  Okkar hinna er að fylgja fordæmi hans".