Verða haldnir tvisvar á ári

Landssamtök skógareigenda (LSE) æskja þess að miðlun rannsóknarniðurstaðna um skóga og skógrækt verði aukin og að gögn um samningsbundnar skógræktarjarðir verði gerðar aðgengilegar á vefnum jord.is. Nýverið héldu samtökin fyrsta samráðsfund sinn með Skógræktinni um nytjaskógrækt á bújörðum. Slíkir fundir verða haldnir tvisvar á ári héðan í frá.

Fyrsti fundurinn var haldinn í fundarsal Rann­sókna­stöðvar skógræktar Mógilsá föstudaginn 17. mars. Fyrir hönd LSE sátu fundinn María Ingvadóttir, Hraundís Guðmundsdóttir, Agnes Þ. Guðbergsdóttir, Maríanna Jóhannsdóttir, Bergþóra Jónsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson formaður og  Hrönn Guðmundsdóttir fram­kvæmda­stjóri. Fulltrúar Skógræktarinnar voru Edda S. Oddsdóttir, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Þröstur Eysteinsson, Hreinn Óskarsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson og Gunnlaugur Guðjónsson.

Framtíðarsamstarf rætt

Á þessum fyrsta fundi var rætt hvernig samráði og samstarfi skyldi háttað til framtíðar, m.a. um tilhögun greiðslna fyrir ýmsa þætti skógræktar á lögbýlum, hvaða stefnu skyldi taka, hvernig áætlunum skyldi framfylgt, gerð umhirðu­áætl­ana og um brunavarnir sem mikilvægt væri að vinna markvisst að. Fræðslumál voru hugleikin fundarmönnum og rann­sóknir komu töluvert til umræðu. Töldu fulltrúar skógarbænda að betur mætti miðla rannsóknarniðurstöðum um skóga og skógrækt til bænda.

Formaður LSE velti upp þeim möguleika að Skógræktin kannaði samstarf við Bændasamtökin um að gögn um skóg­ræktarsamninga og áætlanir yrðu gerð aðgengileg á vefnum jord.is. Á þessum vef geta bændur nú þegar gengið að ýmsum upplýsingum um jarðir sínar og upplagt væri að gögn um nytjaskógrækt á bújörðum yrðu hluti af því.

Tveir samráðsfundir á ári framvegis

Ákveðið var á fundinum að framvegis yrðu haldnir tveir samráðsfundir af þessum toga á ári, hvor með sínu markmiði. Fyrri fundinn skal halda í febrúarlok og verður megináherslan lögð á það sameiginlega verkefni að auka við nytja­skóg­rækt í landinu og afla til þess aukins fjármagns. Á fundunum verður skipst á upplýsingum, svo sem um aðsókn að nytjaskógrækt á lögbýlum, sett sameiginleg viðmið um endurgreiðslu samþykkts kostnaðar og fleira.

Á síðari samráðsfundi ársins er gert ráð fyrir að metinn verði árangur ársins og gefið yfirlit um framkvæmdir í nytja­skógrækt á lögbýlum. Samstarf Skógræktarinnar og LSE verður metið og önnur mál tekin fyrir sem upp kunna að koma. Fundurinn skal haldinn í byrjun nóvember. Samráðsfundina sitja stjórnarmenn LSE og framkvæmdarstjóri, formenn aðildarfélaga og fulltrúar í framkvæmdaráði Skógræktarinnar.

Að virkja aðildarfélögin

Í seinni hluta fundarins 17. mars var rætt um ýmis mál, meðal annars um félagsmál skógarbænda og verktakamál. Það á við um aðildarfélög LSE eins og mörg önnur félög að erfitt getur verið að halda uppi markvissu starfi í fámenni. Fram kom á fundinum að Skógræktin hefði ekki í hyggju að reka verktakastarfsemi. Hins vegar væri stofnunin tilbúin til að leiðbeina og styðja faglega við þá sem vilja hasla sér völl á þessu sviði. Rætt var á fundinum hvort slíkt gæti verið á færi aðildarfélaganna enda hagsmunamál skógareigenda að verktakar væru til taks í þau verk sem vinna þarf. Lagt var til að formenn aðildarfélagana tækju þetta upp hver í sínu félagi og ræddu þá möguleika sem væru fyrir hendi.

Loks má nefna að á þessum fyrsta samráðsfundi skoruðu Landssamtök skógareigenda á Skógræktina að halda dag­langt útinámskeið um gróðursetningu. Mikilvægt væri að farið yrði yfir verklag við þá vinnu utandyra frekar en inni í kennslustofu. Skilaboðin sem LSE og formenn aðildarfélaganna taka með sér af þessum fundi eru að hvetja bændur til dáða í skógræktinni.

Texti: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Pétur Halldórsson