Ferðamenn sem leigja bíl hjá Avis-bílaleigunni geta brátt keypt tré sem gróðursett verða í þjóðskógu…
Ferðamenn sem leigja bíl hjá Avis-bílaleigunni geta brátt keypt tré sem gróðursett verða í þjóðskógunum og binda kolefni í stað þess sem losnar vegna aksturs bílanna. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Avis-bílaleigan býður viðskiptavinum sínum á næstunni að binda kolefni í íslenskum skógum til mótvægis við þá losun sem hlýst af notkun bílaleigubílanna. Þjónustan er í boði gegnum Treememberme en Skógræktin sér um ræktun skóganna og þar með um kolefnisbindinguna.

Þetta er annað stóra fyrirtækið í ferðaþjónustu sem á skömmum tíma tekur upp þessa þjónustu við viðskiptavini sína en nýverið sögðum við hér á skogur.is frá því að á bókunarvefnum dohop.is væri nú hægt að kaupa kolefnisbindingu í skógrækt til að vega upp á móti losun vegna flugferða.

Á ferðafréttavefnum turisti.is er haft eftir Axel Gómez, framkvæmdastjóra hjá Avis, að losunin verði reiknuð út í lok leigutíma og þá út frá fjölda ekinna kílómetra og stærð ökutækis. „Við gerum okkur grein fyrir því að slík nálgun er ekki 100 prósent og þar spila margir óvissu þættir inn í eins og fjöldi farþega í bíl, farangur, langkeyrsla, aldur, tegund og fleira,”segir Axel.

Sem fyrr segir er þessi þjónusta Avis í boði í samstarfi við TreememberMe sem sér til þess að unnið verði upp á móti kolefnislosuninni með gróðursetningu trjáa í íslenskum skógum. Viðskiptavinir Avis ráða því að hversu miklu leyti þeir kolefnisjafna ferðir sínar og velja samkvæmt því hversu mörg tré þeir kaupa. TreememberMe hefur gert samning við Skógræktina um að stofnunin sjái um gróðursetningu og umhirðu þess skógar sem ræktaður verður í þessu skyni. Treememberme hefur þróað aðferðir og búnað sem gerir viðskiptavinum kleift að skoða ýmsar upplýsingar um trén á vefnum, svo sem staðsetningu, trjátegundir og kolefnisbindingu.

„Okkar þjónusta felst fyrst og fremst í því að upplýsa og bjóða viðskiptavinum okkar þann möguleika að binda sitt kolefnisspor. Þetta er hugsað sem okkar fyrsta skref en enginn ákvörðun um mótframlag hefur ennþá verið tekið og til að byrja með verða viðskiptin eingöngu á milli okkar viðskiptavina og TreememberME,” svarar Axel spurningu á turisti.is um hvort bílaleigan sjálf leggi til framlag á móts við viðskiptavininn.

Í tilkynningu frá Avis segir að fyrirtækið hafi undanfarin misseri lagt stóraukna áherslu á umhverfisvænar lausnir fyrir viðskiptavini og einnig leiðir til að minnka umhverfisáhrif af rekstri. Hinu nýja kolefnislosunarverkefni verður hleypt af stokkunum í byrjun desembermánaðar.

Sett á skogur.is:  Pétur Halldórsson