Nú líður að lokum listsýningarinnar í Jafnaskarðsskógi en hún hefur staðið yfir síðan í byrjun júlí. Í skóginum sýndu átta vestlenskir listamenn verk sín sem öllu áttu það sameiginlegt að vera að mestu unnin úr efni úr skóginum. Sýningin var samstarfsverkefni Skógræktar ríkisins og Menningarráðs Vesturlands.

Birgir Hauksson, skógvörður Skógræktar ríkisins á Vesturlandi, segir samstarfið hafa gengið mjög vel og augljóslega hafi heimsóknum í skóginn fjölgað mikið í sumar. „Svona uppákomur verða til þess að skógarnir laða til sín fólk sem annars hefur lítið heimsótt þá. Sumarið hefur líka verið gott og núna í haust hefur verið svo mikið af berjum að við elstu menn munum ekki annað eins. Einnig hefur verið töluvert af sveppum og það er alltaf að aukast að fólk komi til að tína sveppi.“

Sýningunni lýkur formlega þann 27. september n.k. með rástefnunni Menning í landslagi. Á henni verður fjallað um byggingararf, skipulag og list í landslagi. Að erindum og umræðum loknum verður farið í Jafnaskarðsskóg þar sem listsýningin verður skoðuð og boðið verður upp á veitingar. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.