Íslenskur birki- og sitkagreniskógur.
Íslenskur birki- og sitkagreniskógur.

Þingmenn og ráðherra lýstu ánægju sinni með málið við atkvæðagreiðsluna

Í hádeginu í dag var frumvarp um nýja skóg­ræktar­stofn­un tekið til þriðu umræðu og atkvæðagreiðslu á Alþingi. Frumvarpið var samþykkt sem lög frá þinginu með öllum greiddum atkvæðum. Nokkrir þing­menn tóku til máls auk þess sem umhverfis- og auðlindaráðherra gerði grein fyrir atkvæði sínu. Öll lýstu þau ánægju sinni með málið og sögðu sameiningar­starf­ið vera til fyrirmyndar.

Við þriðju umræðu tók Elín Hirst, þing­maður Sjálfstæðisflokksins, til máls um atkvæðagreiðsluna og fagnaði sam­eining­unni enda yrði stjórnsýsla í málaflokknum einfaldari og sterkari og í samræmi við umhverfisáherslu samtímans. Hún vonaðist til að endurskoðun skógræktar­laga og landgræðslulaga yrði hraðað og þá mætti jafnvel sjá frekari samræmingu á þessu sviði. Líneik Anna Sævars­dóttirr, þingmaður Framsóknarflokksins, steig líka í ræðustól og lýsti m.a. ánægju með þá samstöðu sem orðið hefði um breytinguna en benti á áhyggjuraddir sem hefðu heyrst frá bændum og mikilvægt að áfram yrði góð samvinna við þá, bæði um samningagerð og fjármál. Þá tók Vilhjálmur Árnason, þingmaður sjálfstæðismanna, til máls og ræddi um frekari sameiningar en einnig þá áherslu að ný skógræktarstofnun skyldi aðstoða skógareigendur við að efla sína úrvinnslu og markaðssetningu en stofnunin skyldi með tíð og tíma að draga starfsemi sína saman um leið og skógarbændur sæktu í sig veðrið.

Við sjálfa atkvæðagreiðsluna gerði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, grein fyrir atkvæði sínu. Fagnaðarefni væri að málið yrði nú að lögum. Hægt væri að standa vel að sameiningu stofnana og hún þakkaði Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir starf hennar að þessu máli. Sigrún þakkaði líka nýjum skógræktarstjóra fyrir hvernig hann hefði tekið á málum og talað við sína starfsmenn. Það hefði gerst sem fátítt væri að starfsfólk stofnana sem sameina ætti gripi hana á förnum vegi til að þakka fyrir sameiningarstarfið. Þá þakkaði Sigrún umhverfis- og sam­göngunefnd fyrir vinnu hennar að málinu og einnig þingheimi öllum. Sameiningin gæti orðið öðrum fyrirmynd en skógrækt væri líka mjög mikilvæg starfsemi, ekki síst til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Því næst tilkynnti forseti Alþingis að atkvæðagreiðslu væri lokið og frumvarpið hefði verið samþykkt með 45 sam­hljóða atkvæðum og yrði sent ríkisstjórninni sem lög frá Alþingi.

Hér á eftir er rakinn til fróðleiks aðdragandi sameiningarinnar og það virka lýðræðislega ferli sem farið hefur verið eftir í sameiningarstarfinu.

Sameiningarferlið

Hin nýja stofnun, Skógræktin

Með samþykkt laganna renna saman í eina stofnun Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt. Verkefnin eru Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Norðurlandsskógar, Héraðs- og Austurlandsskógar og Suðurlands­skóg­ar ásamt því að umsjón með Hekluskógum flyst með inn í nýja stofnun einnig. Kveðið er á um það í lögunum að hin nýja stofnun skuli heita Skógræktin. Á næstu vikum verður unnið að því að hanna útlit nýrrar stofnunar með vefsíðu, nýju merki og þess háttar. Fljótlega verður skipurit stofnunarinnar kynnt ráðherra ásamt stefnuskjölum og markmiðum. Einnig verða lausar stjórnunarstöður auglýstar til umsóknar.


Bandormur

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti 3. maí fyrir frumvarpi til laga um nýja skógræktar­stofn­un. Lögin eru svokallaður bandormur, breytingar sem nauðsyn er að gera á eldri lögum til að tiltekið mál nái fram að ganga.

Í ræðu sinni 3. maí gat ráðherra þess að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefði á undarförnum misserum haft til skoðunar ýmsar sviðsmyndir um sameiningu eða aukið samstarf stofnana sem undir ráðuneytið heyra. Í júní 2015 hefði hafist vinna hjá starfshópi við skoðun á sam­einingu alls skógræktarstarfs á vegum ríkisins í eina stofnun.

Skýr niðurstaða starfshópsins

Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður fór fyrir starfshópnum sem skilaði niðurstöðum í september 2015. Í hópnum sátu einnig Vilhjálmur Árnason alþingismaður, Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlinda­ráðuneyt­inu, Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Jón Loftsson, þáverandi skógræktar­stjóri, fyrir hönd Skógræktar ríkisins og Björn Bjarndal Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, sem var fulltrúi lands­hluta­verk­efna í skógrækt. Með hópnum starfaði Guðrún Ragnarsdóttir ráðgjafi auk ritara.



Starfshópurinn rýndi í kosti þess og galla að sameina allt skógræktarstarf ríkisins og lagði mat á ávinning og áskoranir sem uppi yrðu í kjölfar hennar. Haft var náið sam­starf við Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands. Niðurstaðan var að sameining landshlutaverkefnanna og Skógræktar ríkisins væri æskileg og skap­aði tækifæri fyrir framþróun og eflingu skógræktar í landinu. Samhæfing alls skógræktarstarfsins gæti stuðlað að eflingu atvinnulífs og rennt styrkari stoðum undir búsetu í byggðum landsins. Þá væri markmiðið að gera stjórnsýslu skógræktar­mála skilvirkari, auka faglega getu og yfirsýn.

Samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum skal ný skógræktarstofnun hafa höfuðstöðvar á Fljótsdalshéraði og reka starfstöðvar í öllum landshlutum. Ráðherra hefur lagt ríka áherslu á stað­setn­ingu höfuðstöðvanna og gat þess við fyrstu umræðu um frumvarpið að þegar nýr skógræktarstjóri var ráðinn í lok síðasta árs hefði verið gerð skýr krafa um að hann yrði búsettur eystra. Starfstöðvar Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna er auðvelt að sameina á flestum stöðum og raunar deila sumar þeirra húsnæði nú þegar, svo sem á Selfossi, Akureyri og Egilsstöðum.

Eins og getið er um í frumvarpinu verður meðal helstu verkefna nýju stofnunarinnar skipulag og ráðgjöf við nýræktun skóga, umhirðu og nýtingu, umsjón þjóðskóga, rannsóknir í skógrækt, fræðsla og kynning.

Víðtæk sátt markmiðið

Að því er Sigrún Magnúsdóttir sagði þegar hún mælti fyrir frumvarpinu var markmiðið við undirbúning sam­einingar­inn­ar að skapa sem víðtækasta sátt um málið. Þegar starfshópurinn hafði skilað af sér hófst vinna við frumvarpið. Meðal annars voru haldnir fundir með framkvæmdastjórum allra landshlutaverkefnanna og skógræktarstjóra sem upplýstu starfsfólk sitt um áframhaldandi vinnu við fyrirhugaða sameiningu. Þá var haft samráð við kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna ákvæða sem tengjast réttindum og skyldum starfsmanna Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna. Ráðningarsamningar allra starfsmanna halda sér yfir í nýja stofnun og þar með réttindi og skyldur en svo verður hlutverk stjórnenda að laga starfsmannahópinn að nýju skipulagi og verkefnum.

Skógræktarstjóra var falið að stýra undirbúningsvinnu sameiningarinnar. Myndaður var stýrihópur sem í sátu framkvæmdastjórar landshlutaverkefnanna, fjórir starfsmenn Skógræktar ríkisins og fulltrúi umhverfis- og auðlinda­ráðu­neytis­ins. Hópurinn hefur unnið ásamt ráðgjöfum Capacent að stefnumótun fyrir starf nýrrar stofnunar með virkri þátttöku starfsfólks allra stofnananna.

Lýðræðislegt ferli

Í byrjun árs var skipað í þrjá tíu manna vinnuhópa starfsfólks allra stofnananna sem skyldu fjalla hver um sitt málefni nýrrar stofnunar, innri mál, ytri mál og fagleg mál. Hóparnir unnu tvo til þrjá vinnudaga hver ásamt ráðgjöfum Capacent og skiluðu af sér skýrslum sem kynntar voru á stefnumótunarfundi alls starfsfólksins á Grand hótel í Reykjavík 9. mars. Fundinn sátu nær allir starfsmenn stofnananna. Hann var með þjóðfundar­sniði þar sem fólki var skipt niður á átta hringborð og tiltekin málefni rædd á hverju. Undir lok fundarins var stokkað upp á milli borða svo að ná mætti fram sem flestum sjónarmiðum um málefni hvers borðs.

Auk stefnumótunarfundarins tóku ráðgjafar Capacent starfsmannaviðtal við hvern einasta starfsmann á starfstöð hvers og eins. Þetta voru trúnaðarsamtöl en ráðgjafarnir unnu upp úr þeim ópersónugreinanleg gögn sem notuð hafa verið í áframhaldandi vinnu við mótun stefnu og skipulags nýrrar stofnunar. Ferlið hefur því verið mjög lýðræðislegt og starfsfólk fengið margs konar tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og reifa bæði það sem vel hefur gengið og annað sem betur mætti fara.

Breytingar í lögunum

Að lokinni fyrstu umræðu um frumvarpið um nýja skógræktarstofnun fór það fyrir umhverfis- og samgöngunefnd. Frestur til að skila athugasemdum rann út 18. maí. Níu athugasemdir bárust og í nokkrum þeirra var bent á að í frumvarpið vantaði eldra ákvæði um það markmið að rækta skyldi skóg á 5 prósentum láglendis undir 400 metra hæð yfir sjó. Umhverfis- og samgöngunefnd vann breytingartillögu þess efnis við þriðju grein frumvarpsins og var hún samþykkt miðvikudaginn 1. júní ásamt öðrum greinum þess. Lögin í heild voru svo samþykkt samhljóða á þinginu í dag, 2. maí.


Í frumvarpinu sem nú er orðið að lögum voru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um skógrækt númer 3 frá árinu 1955. Annars vegar eru nauðsyn­legar breytingar sem fela í sér að ný stofn­un, Skógræktin, taki við öllum verkefnum Skógræktar ríkisins og hins vegar eru breytingar sem snúa að því að eitt af verkefnum nýrrar stofnunar verði að reka landshlutaverkefni í skógrækt samkvæmt lögum nr 95 frá 2006. Að auki eru ákvæði til bráðabirgða um réttindi og skyldur starfsmanna Skógræktar ríkisins.

Með svipuðum hætti snúa breytingar á lögum um landshlutaverkefni í skógrækt nr 95 frá 2006 einkum að yfirstjórn verkefn­anna. Við sameininguna taki ný stofnun við hlutverki þeirra stjórna sem verið hafa yfir hverju verkefni fyrir sig fram að þessu. Ekki verði áfram skipaðar stjórnir yfir verkefnunum en í stað þess kemur nýtt ákvæði um samráð við félög skógarbænda og Landssamtök skógar­eig­enda. Landshlutaverkefnin eru nú ekki lengur nefnd í lögunum en gert er ráð fyrir því að stofnunin nýja muni sinna þeim verkefnum sem landshlutaverkefnin sinntu áður. Þá eru lögunum ákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna verkefnanna sambærileg ákvæðunum um starfsfólk Skógræktar ríkisins sem áður voru nefnd. Breytingar á öðrum lögum eru eingöngu nafnabreytingar þar sem heiti nýrrar stofnunar leysir af hólmi heiti hinna eldri í öllum lagagreinum þar sem þau koma fyrir.

Ný skógræktarlög í undirbúningi

Þegar Sigrún Magnúsdóttir hafði mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi 3. apríl tók Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður framsóknarmanna, til andsvars. Hún spurði ráðherra hvort ekki stæði til að endurskoða alla löggjöf um skógrækt á Íslandi. Lög um skógrækt væru komin til ára sinna og mikilvægt að endurskoða þau til að framþróun í skógrækt gæti orðið markviss áfram. Ráðherra sagðist geta fullvissað þing­manninn um að sú vinna væri þegar hafin í ráðuneytinu. Líneik Anna tók aftur til máls og fagnaði því að vinna að nýrri löggjöf væri hafin en sagðist telja mikilvægt að um leið yrði litið til þess að samhæfa markmið á víðara sviði svo sem í skógrækt, landgræðslu og náttúruvernd.

Eining ríkti meðal þingmanna meirihluta og minnihluta við fyrstu umræðu málsins. Strax virtist því flest benda til þess að af þessu yrði, að ný stofnun, Skógræktin, tæki til starfa á næstunni. Stýrihópurinn um sameininguna hafði þá skilað af sér tillögum til ráðuneytisins um skipulag hinnar nýju stofnunar ásamt drögum að stefnuskjali.

Samstíga skógræktarfólk

Til þess er tekið hversu vel þetta sameiningarferli hefur gengið og þeirrar samstöðu sem um það hefur ríkt í undirbúningsstarfinu. Það á sér eflaust ýmsar skýringar en á það er bent að hér sé verið að sameina stofnanir með mjög skýr og sameiginleg markmið og verkefni. Starfsfólk allra þessara stofnana þekkist vel og hefur unnið náið saman að ýmsum verkefnum, hist á fagráðstefnum og fundum og hefur sameiginlega sýn um að klæða landið skógi og skapa verðmæta auðlind ásamt öllum þeim fjölbreytta ávinningi sem skógrækt hefur fyrir land, þjóð og heimsbyggð. Með sameinaðri stofnun er tækifæri til að ganga í takt að hinu sameiginlega markmiði.

Starfsfólki hinnar nýju stofnunar er hér með óskað til hamingju með þennan áfanga og um leið skógræktarfólki um allt land og landsmönnum öllum.



Texti og myndir: Pétur Halldórsson