Frá miðborg Brussel þar sem fundurinn var haldinn. Ráðstefnumiðstöðin Square til vinstri. Mynd. Sigr…
Frá miðborg Brussel þar sem fundurinn var haldinn. Ráðstefnumiðstöðin Square til vinstri. Mynd. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Íslendingar með í nýju Cost-verkefni

Í vikunni fóru tveir starfsmenn Skógræktarinnar, Arnór Snorrason og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, á fyrsta fundinn í nýju Cost-verkefni (Cost Action 15226) sem kallað er „Climate-Smart Forestry in Mountain Regions“ (CLIMO). Cost er evrópskur samstarfsvettvangur á sviði vísinda og tækni sem Ísland er þáttakandi í (sjá: http://www.cost.eu/).

Heiti verkefnisins gæti útlagst á íslensku eitthvað á þá leið að þarna sé verið að laga skógrækt og skógarnytjar í fjallahéruðum að loftslagsbreytingum. CLIMO er þverfaglegt verkefni og markmið þess er að skilja og rannsaka ýmsa þætti sem felast í þremur leiðarljósum:

  1.     Að bæta lífsviðurværi þeirra sem búa við og nýta fjallaskóga með aukinni áherslu á vistþjónustu skóganna.
  2.     Að efla aðlögun og þol fjallaskóga fyrir loftslagsbreytingum.
  3.     Að milda eins og mögulegt er afleiðingar loftslagsbreytinga með hjálp fjallaskóga.


Öll þessi leiðarljós eiga vel við íslenska skógrækt sem stunduð er við skógarmörk og ekki síst bændaskógrækt. Huga þarf að nýjum aðferðum við mat á vistþjónustu svo sem mest fáist út úr henni. Þetta leggst við aðra nýtingu skógana og getur þannig bætt lífsviðurværi fólks sem á og ræktar skóga hér á landi.

Þennan fyrsta fund verkefnisins sem haldinn var í Brussel sátu fulltrúar allra þátttökulandanna 23 nema Króatíu. Af nágrönnum okkar voru þar fulltrúar frá Írlandi, Bretlandi og Noregi. Fram kom að Svíar og Finnar væru að undirbúa umsókn um aðild að verkefninu. Verkefnið er til fjögurra ára og skiptist niður á fjóra vinnuhópa:

  1.    Aðferðir og skilgreiningar á hugtakinu „Climate-Smart Forestry“.
  2.    Uppbygging á gagnabanka yfir vöktunarsvæði í fjallaskógum  (ESFONET).
  3.    Þróun á framsetningu gagna úr ESFONET með stafrænum hætti á veraldarvefnum.
  4.    Gerð tillagna um hvernig hægt væri að greiða fyrir vistþjónustu skóganna.

Næsti fundur í framkvæmdaráðinu og fyrsti fundur vinnuhópanna verður snemma á næsta ári. Brynhildur Bjarnadóttir, skógvistfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, er auk Arnórs og Sigríðar Júlíu þátttakandi fyrir Íslands hönd og vera má að fleira fagfólk verði kallað að borðinu eftir því sem verkefninu vindur fram.

Texti: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og  Pétur Halldórsson