Skilafrestur til 25. janúar

Nú fer hver að verða síðastur að senda inn myndir í ljósmyndasamkeppnina Bioeconomy Photo Competition sem haldin er á vegum evrópska samstarfsverkefnisins CommBeBiz. Myndir sem sendar eru inn í samkeppnina skulu tengjast rannsóknum á sviði lífhagkerfisins. 

CommBeBiz er verkefni á vegum Evrópusambandsins sem ætlað er að vera eins konar brú milli rannsókna á sviði lífhagkerfisins annars vegar og efnahagslífs og nýsköpunar hins vegar. Ljósmyndasamkeppninni er ætlað að vera hvatning vísindafólki til að taka upplýsandi og fallegar myndir af verkefnum sínum. Leitast er eftir ljósmyndum sem tengjast með einhverjum hætti rannsóknum á hvaða sviði lífhagkerfisins sem er, hvort sem það eru matvæli, landbúnaður, skógrækt og skógarnytjar, líftækni, sjávarfang eða annað. Rannsóknirnar mega vera á sviði raunvísinda og náttúruvísinda jafnt sem hug- og félagsvísinda. Myndirnar geta verið af fólki, stöðum eða hlutum og jafnvel heldur óhlutbundnari myndir sem fengnar eru með hjálp ýmissa rannsóknartækja, til dæmis með smásjártækni.

Frestur til að skila inn ljósmyndum í samkeppnina rennur út mánudaginn 25. janúar 2016. Fyrstu verðlaun nema 500 evrum. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu samkeppninnar.

Texti: Pétur Halldórsson