Í hlýindum sem verið hafa á Suðurlandi síðustu dagana hafa hlynfræ sem fuku af hlyni nágrannans síðastliðið haust byrjað að spíra í blómabeði í garði skógarvarðarins á Selfossi. Þessi fræ er nokkuð lík öðru trjáfræi að því leyti að inni í fræinu leynist lítill vísir að kímplöntu sem er tilbúin að teygja úr sér, setja rætur í mold og opna blöðin mót sólu. Heppnustu hlynirnir hafa lent á hentugum stað þar sem þeir ná að róta sig í frjósömum jarðvegi og fá skjól fyrir köldum norðanvindum.  Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig hlynur brýst út úr vængjuðu fræinu. Nú er bara að bíða og sjá hvort hlynirnir lifa af kuldahretið sem nú gengur yfir landið.