(Mynd: Þór Þorfinnsson)
(Mynd: Þór Þorfinnsson)

Í nóvember árið 2009 var fyrsta kurlkyndistöð til húshitunar á Íslandi vígð á Hallormsstað. Stöðin notar viðarkurl úr nærliggjandi skógi og þjónar í fyrsta áfanga grunnskóla, íþróttahúsi, sundlaug og hóteli. Að kyndistöðinni koma ýmsir aðilar en hún er í eigu Skógarorku, hlutafélags sem stofnað var sérstaklega í kringum rekstur stöðvarinnar.

Kyndistöðin hefur nú verið rekin í rúmt ár og því áhugavert að skoða hvernig til hefur tekist með þessa frumraun hér á landi. Esther Ösp Gunnarsdóttir, kynningarstjóri Skógræktar ríkisins, ræddi við þá Þór Þorfinnsson, skógarvörð á Hallormsstað og Guðmund Davíðsson, stjórnarformann Skógarorku, um reynsluna af kyndistöðinni og framtíðarsýn þeirra á kyndingu á köldum svæðum.

Efnið nýtt upp til agna

Guðmundur segir kyndistöðina hafa staðist allar væntingar. „Stöðin stendur sig mjög vel. Þessi tilraun er í alla staði að takast vel og stöðin er fyllilega samanburðarhæf við aðrar kurlkyndistöðvar á Norðurlöndunum og í Evrópu. Þetta er prýðileg lausn á köldum svæðum.”

Í Hallormsstaðarskógi í mars 2011

Í stórum skógi eins og á Hallormsstað er umtalsverð þörf fyrir grisjun. Við fyrstu grisjun fellur til töluvert af efni sem er illnýtanlegt í borð eða staura. Hvað verður um það efni? „Í fyrstu grisjun byrjum við á því að taka frá allt efni sem er hæft til annarrar nýtingar, t.d. til að fletta borð og girðingastaura. Það sem eftir verður er svo kurlað og fer í kyndistöðina,” segir Þór. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta selt grisjunarefni úr fyrstu grisjun. Við getum grisjað meira en áður og nýtt efnið betur. Á þennan hátt fer ekkert til spillis.”

Kyndistöðin atvinnuskapandi

Í Hallormsstaðarskógi í mars 2011

Á fyrsta heila rekstrarári stöðvarinnar voru keyptir um 1.500 rúmmetrar af kurli úr skóginum á Hallormsstað, fyrir um 4 milljónir kr. „Við höfum þurft heldur meira kurl en við bjuggumst við,” segir Guðmundur. „Það skýrist fyrst og fremst af því að þurrkunartími viðarins hefur ekki verið alveg nógur hingað til. Rakinn hefur því verið aðeins yfir þeim mörkum sem æskileg eru fyrir reksturinn.”

Það hefur því verið mikið um að vera í Hallormsstaðarskógi undanfarna mánuði og þar hefur m.a. farið fram stærsta grisjun verktaka á Héraði. „Allar grisjanir og kurlun fyrir kyndistöðina eru unnar af verktökum,” segir Þór. „Kyndistöðin er því beinlínis atvinnuskapandi fyrir svæðið.”

Ekki niðurgreitt eins og rafmagn

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra

Húshitunarkostnaður þeirra sem búa á köldum svæðum hér á landi er umtalsvert meiri en þeirra sem búa á heitum svæðum. Á fyrsta rekstrarári kyndistöðvarinnar hefur orkan verið seld til notenda á 7,8 kr./kwst.

„Það þykir ágætur árangur miðað við svipaðar stöðvar á Norðurlöndunum og í Evrópu,” segir Guðmundur. „Hér á landi þykir þetta hins vegar nokkuð hátt. Viðskiptavinir okkar á Hallormsstað bera sig auðvitað saman við t.d. Egilsstaði og í þeim samanburði er verðið nokkuð hátt, enda er þar verið að miða við hitaveitu. Það sem við erum að bíða eftir núna er að viðskiptavinir kyndistöðvarinnar fái sömu niðurgreiðslu vegna húshitunarkostnaðar og þeir sem kynda hús sín með rafmagni. Við höfum fengið 8 milljón kr. styrk til að koma verkefninu, sem kostar um 42 milljónir kr., af stað. Orkuverð hér á landi er með því lægsta sem gerist í heiminum. Þessa húshitunaraðferð verður að niðurgreiða líka til að við séum samskeppnishæf. Dæmið liti auðvitað allt öðruvísi út ef við gætum skilað ódýrari orku inn í húsin til viðskiptavina okkar. Stjórnvöld verða að skilja þetta.”

Litlar efndir valda sárum vonbrigðum

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra opnar kyndistöðina

Guðmundur segir að nú sé aðstandendur kyndistöðvarinnar farið að lengja eftir eftir næsta skrefi ráðuneytisins. „Undirtektir ráðamanna voru mjög góðar þegar við kynntum kyndistöðina á sínum tíma,” segir Guðmundur. „Viðbrögðin voru mjög jákvæð og við opnunina töluðu menn mikið um frumkvöðlastarfsemi, umhverfisvernd og spennandi verkefni. Áhuginn virtist vera mikill og því hefur það valdið okkur sárum vonbrigðum hvað efndirnar hafa verið litlar, bæði hvað varðar niðurgreiðslu og frekari styrki til verkefnisins.”

Regluverkið verður að klára

Gert er ráð fyrir því að hægt verði að tengja alla byggðina á Hallormsstað inn á orkuveitu kyndistöðvarinnar í framtíðinni. Nú er svo komið að önnur byggðarlög í svipuðum aðstæðum eru farin að horfa til kyndistöðvarinnar. „Nú eru uppi hugmyndir um að byggja kurlkyndistöðvar á fleiri stöðum á landinu,” segir Guðmundur. „Regluverkið verður að klára svo hægt sé að halda þessum verkefnum áfram. Ef við lítum á þetta heildstætt erum við að fá kostnaðinn margfalt til baka.”



Myndir: Þór Þorfinnsson og Esther Ösp Gunnarsdóttir
Texti: Esther Ösp Gunnarsdóttir