Lars Nilsen skilur eftir sig ýmis listilega unnin verk í Vaglaskógi. Eitt þeirra er þetta leiksvæði …
Lars Nilsen skilur eftir sig ýmis listilega unnin verk í Vaglaskógi. Eitt þeirra er þetta leiksvæði með sandkassa og skúr á tjaldsvæðinu. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Hagleiksmaðurinn Lars Nilsen hefur smíðað sandkassa og kofa á tjaldsvæðinu í Vaglaskógi sem óhikað má kalla listaverk. Lars lætur af störfum hjá Skógræktinni um mánaðamótin og heldur á vit nýrra ævintýra.

Sandkassinn er á svokölluðu Neðra-Hróarsstaðanesi í Vaglaskógi þar sem er mjög vinsælt að tjalda enda aðstaðan góð og fallegt um að litast hvert sem litið er. Ekki versnar það útsýni við nýja leiksvæðið sem þar er komið upp. Á síðasta ári var settur upp svokallaður ærslabelgur, uppblásin hoppudýna sem höfð er í gangi frá morgni til kvölds og hefur sannarlega slegið í gegn á svæðinu. Fleiri leiktæki eru á svæðinu og í sumar bættist við listilega smíðaður sandkassi með drekamyndum. Lars Nilsen skógtæknir hafði veg og vanda af smíðinni. Efniviðurinn er lerki úr skóginum og á þak skúrsins voru settar þunnar viðarskífur.

Lars Nilsen lauk á síðasta ári prófi í skógtækni frá Skovskolen í Danmörku sem er hluti Kaupmannahafnarháskóla. Þar varð hann langhæstur allra nemenda og hlaut sérstök verðlaun fyrir lokaverkefni sitt. Lars hefur nú starfað hjá Skógræktinni undanfarin tvö ár og unnið margvísleg verk sem fáir hefðu leikið eftir honum. Allt leikur í höndum hans og hefur Lars smíðað ýmsa nytjahluti sem létt hafa störf bæði innan dyra og utan, innleitt nýjar aðferðir og miðlað af reynslu sinni við viðarvinnslu og sögun. Lars eru þökkuð vel unnin störf hjá Skógræktinni á Vöglum og óskað farsældar í því sem hann kann að taka sér fyrir hendur í framhaldinu.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson