Í nýlegu hefti af Skoven sem er útgefið af Dansk Skovforening (Skoven 9, 2011) er sagt frá nýsköpunarverðlaunum sem norsk fyrirtæki fengu fyrir sjávarfallavirkjun. Það merkilegasta við uppfinningu Norðmannanna og ástæða þess að þeir hlutu Schweighofer-verðlaunin, er að spaðar sjávarfallavirkjunarinnar sem starfað hefur síðan í október 2010 eru gerðir úr límtré. Í neðansjávarvirkjuninni eru fjórar túrbínur með tveimur spöðum hver. Hver spaði eru engin smásmíði eða 2 x 3 m á þykkt og 10 m langur. Kostirnir við að nota límtré eru að vatnsmettað tré sem sökkt er í vatn fær sömu þyngd og umlykjandi vatn, það fúnar ekki þar sem súrefni kemst ekki að því neðansjávar og lítil hætta er á að timbrið verði maðkétið þar sem það er á stöðugri hreyfingu. Spaðarnir þurfa að hafa rétt form og þola mikið álag og eru gerðar miklar kröfur um styrk og einsleitni í efninu sem notað er í spaðana.

Virkjunin framleiðir um 1,5 MW og er reiknað með að hún starfi 4200 tíma á ári sem gerir um 5 GWh árlega. Þessi orka dugir til að hita upp og lýsa um 250 íbúðarhús. Fyrirtækið Hydra Tidal sem setti virkjunina upp telur að Norðmenn geti sett upp um 6000 sjávarfallavirkjanir með norsku ströndinni og að þær gætu framleitt 30 TWh sem ætti að dekka um fjórðung raforkuþarfar Norðmanna. Ef allar þessar virkjanir yrðu settar upp þyrfti um 750 þúsund m3 af límtré.

Íslendingar ættu að kynna sér virkjanir Norðmanna enda eru miklir straumar við Íslandsstrendur. Á næstu árum verður nóg af innlendu timbri í skógum landsmanna sem nýta mætti m.a. til slíkra virkjana.

Nánari upplýsingar:
http://www.hydratidal.no/

http://www.schweighofer-prize.org/winners2011.en.html


Texti: Hreinn Óskarsson
Mynd: Hydratidal