Listræn framsetning á hugmyndinni um tré sem ræktuð væru á jarðneskum leifum látinna. Mynd: Capsula …
Listræn framsetning á hugmyndinni um tré sem ræktuð væru á jarðneskum leifum látinna. Mynd: Capsula Mundi

Skógur í stað kirkjugarðs, tré í stað legsteins

Maðurinn er hluti af hringrás náttúrunnar. Við fæðumst inn í þessa hringrás, endurnýjumst með lífrænum efnum meðan við lifum og svo umbreytast jarðneskar leifar okkar með náttúrlegum ferlum. Hvað um efnin í líkamanum verður að okkur látnum fer þó eftir því hvernig um er búið.

Í þúsundir ára hefur víðast hvar verið siðurinn að grafa eða brenna hina látnu. Í gömlum kirkjugörðum standa gjarnan stór tré, stundum jafnvel á sjálfum gröfunum. Í íslenskum kirkjugörðum er sjaldnast leyfilegt að gróðursetja stórvaxna runna og tré á leiðum. Hugmyndin um að líkamsleifar okkar nýtist fallegu tré til vaxtar er hins vegar heillandi. Við verðum þá til gagns út yfir gröf og dauða ef svo má að orði komast, öðlumst eins konar framhaldslíf. Upp vex tré sem bindur kolefni, veitir skjól, fegrar umhverfið fóstrar margvíslegt örveru- og smádýralíf, sveppi og aðrar jurtir, líka fugla og fleira.

Þessi hugmynd var virkjuð á Ítalíu í verkefni sem kallast Capsula Mundi. Þetta latneska heiti mætti útleggja sem heimshylkið. Þar hafa hönnuðirnir Anna Citelli og Raoul Bretzel þróað lífrænt, niðurbrjótanlegt greftrunarhylki þar sem líkami látinnar manneskju getur brotnað niður og orðið að næringarefnum fyrir tré sem af þeim vex.

Líkinu er komið fyrir í fósturstellingu í hylkinu og síðan er hylkið grafið í jörð og annað hvort gróðursett tré ofan á eða sáð fræi sem af vex trjáplanta. Á vefsíðu verkefnisins eru nú þegar hægt að velja um nokkrar trjátegundir til þessara nota.

Sá hængur er þó á að verkefnið hefur ekki enn komist af hugmyndastiginu enda banna ítölsk lög greftranir sem þessar. Ef svo færi að þær yrðu leyfðar er stefnt að því að búa til minningarreiti sem yrðu fullir af trjám í stað þess að vera fullir af legsteinum. Og í stað þess að eyðileggja og brenna trjávið í líkkistum myndi dauði fólks stuðla að viðarmyndun í nýjum trjám í stað viðareyðingar. Sú hugsun er sannarlega notaleg að eftirlifendur myndu koma að tré ástvinar síns, minnast hans þar, hlúa að trénu og eiga góða stund í nálægð við þá lífveru sem spratt upp af lífinu sem slokknaði.

Forvitnilegt væri líka að sjá hvers konar skógur yxi upp því fólk myndi velja mismunandi trjátegundir og því útlit fyrir að þarna yrði til óvenjulegur og skemmtilegur blandskógur. Land undir þessa minningarreiti gæti verið land sem þegar hefur verið ætlað til skógræktar eða land sem skipulagt er undir garða og græn svæði í þéttbýli. Minningarreitirnir myndu því þjóna margvíslegu hlutverki. Þeir myndu þjóna sama hlutverki og hefðbundnir grafreitir gera nú en að auki veita þá margvíslegu vistkerfisþjónustu sem skógar veita og skapa dýrmæta útvistarmöguleika.

Texti: Pétur Halldórsson