Úrgangi breytt í list- og nytjahluti

Um mánaðamótin nóvember-desember var haldið námskeið á Hvammstanga í námskeiðsröðinni Lesið í skóginn. Námskeiðið hélt Skógrækt ríkisins í samstarfi við Farskóla Norðurlands vestra.

Á námskeiðinu kynntust þátttakendur „öruggu hnífsbrögðunum“ þar sem tálgað er bæði að og frá og hendurnar vinna saman, önnur ýtir og hin stýrir hnífnum. Tálgað er með hníf og exi. Þátttakendur lærðu að búa til kúlur í hálsmen og armbönd, kljúfa efni úr bol og nýta í smjörhnífa og sleifar. Svo gerðu þeir snaga, skóhorn og krúsir. Unnið var með ferskt efni beint úr náttúrunni, efni sem oftast er litið á sem „garðaúrgang“ og breyttu því  í nytja- og skrautmuni. Þessar nytjar eru hluti af sjálfbærni og umhverfisvænum háttum þar sem notað er efni úr nærumhverfinu sem síðan getur farið aftur til náttúrunnar að notkun lokinni án urðunarkostnaðar og mengunar.

Sumir þátttakendanna höfðu töluverða reynslu af tálgun og smíðum. Kristín hafði lengi tálgað prýðisfallega fugla og selt og Eðvald fór að smíða „gamaldags“ jólatré eftir að honum var sagt upp í bankanum á staðnum.

Alls voru 9 þátttakendur á námskeiðinu og sýndu þeir tálguninni mikinn áhuga og lögðu sig fram um að læra tæknina og kynnast þeim fjölmörgu möguleikum sem felast í fersku tálguninni.

Leiðbeinandi á námskeiðinu var Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri „Lesið í skóginn - með skólum“ hjá Skógrækt ríkisins og Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

Hér eru myndir af þátttakendum á námskeiðinu og myndir af jólatré Eðvalds sem hann hefur verið að smíða og fuglum sem Kristín hefur lengi verið að tálga. Einnig voru gerðir skartgripir og fleira skemmtilegt.