Skógarspjall í Morgunglugganum á Rás 1

Björn Traustason, landfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, hefur unnið að því að merkja inn á loftmynd af Íslandi öll þekkt skógræktarsvæði, sem skógræktarfélögin, landshlutabundnu skógræktarverkefnin og Skógrækt ríksins hafa gróðursett í. Þessar upplýsingar hafa nú verið settar inn á skóglendisvefsjá á vef Skógræktarinnar eins og fjallað hefur verið um hér á vefnum. Björn kom í þáttinn Morgungluggann á Rás 1 mánudaginn 27. janúar þar sem Jónatan Garðarsson ræddi við hann um skóglendisvefsjána.

Þessir skógar sem um er rætt spanna um 0,4% af öllu landinu. Mjög stór hluti allra náttúrulegra birkiskóga á landinu er einnig kominn inn í vefsjána og spannar um 1,5%. Það eru því rétt um 2% af öllu landinu skógi eða kjarri vaxin.

Fram kom hjá Birni að í sumar yrði búið að mæla nákvæmlega inn alla birkiskóga landsins, en nákvæmari upplýsingar vantaði hins vegar víða um einkaskógrækt, t.d. við sumarhús og á jörðum sem ekki tilheyra landshlutabundnum skógræktarverkefnum.

Björn hvetur þau sem búa yfir slíkum upplýsingum til að hafa samband við Skógrækt ríkisins eða fara inn á Facebook-síðuna til að veita nánari upplýsingar. Einnig sé hægt að taka skjámynd af vefsjárkortinu, teikna inn á hana og koma henni til Skógræktarinnar.

Smellið hér til að hlusta. Viðtalið við Björn hefst við 28.02 á upptökunni.