Þann 12. nóvember var haldið námskeiðið Jól í útinámi á vegum Náttúruskóla Reykjavíkur og Lesið í skóginn-verkefnis Skógræktar ríkisins fyrir leikskólkennara. Alls sóttu 28 þátttakendur námskeiðið sem fram fór í útistofunni í Heiðmörk við Elliðavatsbæinn.  Ágætis veður var og stemningin hin besta.

Skógarefnið sem notað er, verkfærin og verkefnin eru sniðin að getustigi leikskólabarna. Efnið er sótt í árssprota gljávíðis, alaskavíðis, viðju og birkis. Þessir sprotar eru mjúkir og þægilegir að nota í leikskólastarfi. Einföld áhöld eru notuð, s.s. litlir handborar, klippur/skæri og band, teygjur eða vír. Kennarnir læra að nota þetta efni sem auðvelt er að finna í nærumhverfi leikskólanna, í skjólbeltum sem í vetur verða hvort sem er klippt. Sumir leikskólar hafa fengið að fara í einkagarða að sækja sér slíkt efni. Þátttakendur búa til alls konar muni úr greinunum með því að bora í kjarnann og klippa síðan í lengdir sem henta verkefninu, hvort sem það eru hálsmen, armbönd, óróar, vindhörpur eða jólastjörnur. Með þessu má nota ýmis konar efni og búa til jólasveina úr greinum, köngla eða skreyta og lita með öðrum efnum. Megin kosturinn við þessi verkefni er hversu auðveld þau eru fyrir litlar hendur að framkvæma og börnin eru sjálfbjarga við þessa iðju.

frett_16112009(4)

Myndir og texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríksins.