Sænski skógfræðingurinn Kajsa Matsson við trjámælingar í íslenskum asparskógi. Ljósmynd: Pétur Halld…
Sænski skógfræðingurinn Kajsa Matsson við trjámælingar í íslenskum asparskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Áttundi mars er alþjóðlegur dagur kvenna. Í tilefni af því er ekki úr vegi að kíkja á leiðbeiningarrit um jöfnun kynjahlutfalla í lífhagkerfinu sem SNS, samnorræn samtök um skógrannsóknir, og NKJ, samnorræn samtök rannsókna í landbúnaði, hafa sett saman.

Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir skógfræðingur við skógmælingar. Ljósmynd: ÍSÚRitið er aðgengilegur leiðarvísir fyrir kennara og nemendur til að vekja athygli á því hvernig hægt er að vinna að því að jafna kynjahlutfall innan lífhagkerfisins, ekki síst í skógrækt og öðrum landbúnaðargreinum, til dæmis með því að nýta stafrænar lausnir.

Jafnvel þótt bæði tæki og stafræn tækni létti nú ýmis störf í þessum geira sem áður útheimti mikinn líkamlegan styrk hefur gengið hægt að jafna kynjahlutföll innan hans. Af einhverjum ástæðum eru karlar einnig í meirihluta þeirra sem starfa að stafrænni tækni í bæði skógrækt og öðrum landbúnaði, háskólamenntaðir meðtaldir. Innan raða SNS og NJK var talin þörf á því að kafa ofan í ástæður þessa svo finna mætti leiðir til að breyta þessari þróun í átt til meira jafnræðis.

Auk leiðbeiningarritsins sem aðgengilegt er á vef SNS hafa verið gefin út myndbönd, hlaðvarpsefni og fleira fræðsluefni sem hjálpað getur til við að ná þessu mikilvæga markmiði. Ýtið á hlekkinn hér að neðan til að finna efnið.

Gender Equality in the Nordic Bioeconomy – a Method Manual

Texti: Edda S. Oddsdóttir og Pétur Halldórsson