Í verkefninu Mýrvið er mæld öndun lofttegunda að og frá vistkerfi asparskógarins í Sandlækjarmýri í …
Í verkefninu Mýrvið er mæld öndun lofttegunda að og frá vistkerfi asparskógarins í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Myndin er tekin í janúar 2015. Glittir í Jarlhettur í fjarska milli háspennustauranna.

Styrkféð hátt í níu milljónir króna samanlagt

Fimm rannsóknarverkefni sem tengjast skógvísindum hlutu í gær veglega styrki úr orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar, samtals 8,8 milljónir króna.

Viðfangsefnin eru fjölbreytileg. Skoðuð verður kolefnisuppsöfnun í stöðuvötnum, umhverfisbreytingar og búskapur næringarefna í jarðvegi, loftslagsáhrif skógræktar á framræstu mýrlendi, vistkerfisbreytingar á hálendi norðan Langjökuls og uppruni og erfðabreytileiki blæaspar á Íslandi. Hæsti styrkurinn nemur 2,7 milljónum króna. Skógrækt ríkisins tekur þátt í öllum þessum verkefnum en framlögin renna óskipt til verkefnanna.

Markmið orkurannsóknasjóðsins er að veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga, eins og fram kemur á vef Landsvirkjunar. Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári. Styrkveitingar sjóðsins falla í tvo flokka. Annars vegar eru styrkir til nemenda í meistara- eða doktorsnámi og hins vegar styrkir til efnilegra nemenda sem áforma eða stunda meistara- eða doktorsnám á sviði umhverfis- eða orkumála. Styrkt eru almenn rannsóknarverkefni á sviði umhverfis og orkumála, þar með taldar rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Eftirtalin verkefni á sviði skógvísinda hlutu styrk að þessu sinni:

  • Kolefnisuppsöfnun í stöðuvötnum síðustu 10.000 ár í Húnavatnssýslu
    Leone Tinganelli
    landfræðingur
    Styrkur: 600.000 kr.

    Markmið verkefnisins er að mæla kolefnisuppsöfnun í landvistkerfi síðustu 10.000 ár í Húnavatnssýslu. Kolefnisuppsöfnunin verður tengd þróun gróðurfars og loftslags á sama tíma. Leone stundar meistaranám við Háskóla Íslands í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Ohio State University. Sérfræðingur Skógræktar ríkisins í verkefninu er Ólafur Eggertsson jarðfræðingur, sérfræðingur í fornvistfræði á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.
  • Umhverfisbreytingar og búskapur næringarefna í jarðvegi á Nútíma
    Susanne Claudia Möckel landfræðingur
    Styrkur: 600.000 kr.

    Markmiðið er að rannsaka jarðvegseiginleika og næringarefnabúskap jarðvegs í Húnavatnssýslu síðustu 10.000 árin og varpa ljósi á tengsl jarðvegseiginleika, loftslagsskilyrða og gróðurfars. Susanne stundar meistaranám við Háskóla Íslands í samstarfi við Skógrækt ríkisins og Ohio State University. Sérfræðingur Skógræktar ríkisins í verkefninu er Ólafur Eggertsson jarðfræðingur, sérfræðingur í fornvistfræði á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.

  • Mýrviður – Loftslagsáhrif skógræktar á framræstu mýrlendi
    Brynhildur Bjarnadóttir, Háskólanum á Akureyri, í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógrækt ríkisins
    Styrkur: 2.500.000 kr.

    Verkefninu er ætlað að gefa upplýsingar um þau áhrif sem breytt landnýting (framræsla og skógrækt) hefur á loftslag með því að skoða jöfnuð gróðurhúsalofttegunda. Tveir starfsmenn á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, Bjarki Þór Kjartansson landfræðingur og Edda Sigurdís Oddsdóttir jarðvegslíffræðingur, eru meðal þeirra sérfræðinga Skógræktar ríkisins sem taka þátt í verkefninu.

  • Vistkerfisbreytingar á hálendi norðan Langjökuls síðustu árþúsundir
    Guðrún Gísladóttir, Háskóla Íslands, í samstarfi við Skógrækt ríkisins
    Styrkur: 2.700.000 kr.

    Markmið verkefnisins er að sýna og útskýra áður óþekkta gróðurframvindu og mögulegan hlut og umfang skóglendis frá hálendisbrún, þar sem birki óx á miðbiki nútíma, til hins eiginlega hálendis yfir síðustu árþúsundir. Sérfræðingur Skógræktar ríkisins í verkefninu er Ólafur Eggertsson jarðfræðingur, sérfræðingur í fornvistfræði á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.

  • Uppruni og erfðabreytileiki blæaspar á Íslandi
    Sæmundur Sveinsson, Landbúnaðarháskóla Íslands í samvinnu við Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og Háskóla Bresku-Kólumbíu í Vancouver, Canada
    Styrkur. 2.400.000 kr.

    Verkefnið mun skila heildstæðri mynd af erfðabreytileika blæaspar á Íslandi. Niðurstöður verða notaðar til að kanna uppruna íslenska stofnsins. Sérfræðingur Skógræktar ríkisins í verkefninu er Halldór Sverrisson, sérfræðingur í plöntusjúkdómum og kynbótum trjáa á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson