Birki er frumherjaplanta og dugleg að mynda fræ. Með því að koma fræi á ný svæði þar sem ekki er fræ…
Birki er frumherjaplanta og dugleg að mynda fræ. Með því að koma fræi á ný svæði þar sem ekki er fræforði fyrir má stuðla að útbreiðslu þess. Best er að dreifa fræinu á staði þar sem líklegt er að fræið hafi nægan raka til að spíra og eitthvert samfélag við annan gróður til að geta sprottið upp. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Hafin er landssöfnun á birkifræi í samstarfi Landgræðslunnar og Hekluskóga við Olís. Söfnunin er liður í verkefni sem snýr að endurheimt birkiskóga, en þeir eru mikilvægur þáttur í uppgræðslu lands og auka kolefnisbindingu þess.

Söfnunarpokar eru fáanlegir á Olís-stöðvum á Akureyri, í Álfheimum og Norðlingaholti Reykjavík, í Borgarnesi, á Reyðarfirði, Selfossi, Höfn, Hellu, Fellabæ (Egilsstaðir) og Húsavík. Þessar sömu stöðvar taka við pokunum þegar fólk hefur safnað fræi í þá. Starfstöðvar Landgræðslunnar taka einnig við fræpokum.

Ef ekki hentar að koma við á einhverri Olísstöðvanna má safna birkifræi í tau- eða pappírspoka og skila þeim á fyrrnefnda staði. Safnarar eru beðnir að láta miða í pokana miða með upplýsingum um hvar á landinu fræinu hafi verið safnað. Fræið þarf að vera þurrt í pokunum og best er að koma því sem fyrst á söfnunarstaði. Ef söfnunarpokum er ekki skilað inn strax þarf að geyma þá í kæli.

Nöfn þeirra sem safna þurfa líka að fylgja fræpokunum. Átakinu lýkur um miðjan október og þá verður dregið úr nöfnum þeirra sem söfnuðu fræi og vegleg – umhverfisvæn – verðlaun veitt.

Landgræðslan er með starfstöðvar í Gunnarsholti Rangárvallasýslu, Keldnaholti í Reykjavík, á Sauðárkróki, Hvanneyri, Húsavík og Egilsstöðum. Starfstöðvarnar eru opnar virka daga á venjulegum skrifstofutíma. Vefur Landgræðslunnar er á slóðinni land.is.

Á vef Hekluskóga er fínn fróðleikur um söfnun og sáningu birkifræs:

Vefur Hekluskóga

 Settur hefur verið á fót sérstakur vefur fyrir átakið:

Vefur fræsöfnunar

Í eftirfarandi myndbandi er því lýst hvernig standa megi að söfnun og dreifingu á birkifræi. Myndbandið heitir Endurheimt landgæða – sáning birkifræs:

Því miður er 2019 ekki gott fræár fyrir birki í öllum landshlutum. Þó má víða finna tré með gott fræ, ekki síst á Norður- og Austurlandi þar sem hlýtt var síðasta sumar. Slakt fræár ætti að vera enn meiri hvatning fyrir fólk til að fara á stúfana og leita uppi falleg tré með gott fræ. Með fræsöfnun hjálpum við náttúrunni til að hjálpa sér sjálfri.

Söfnun birkifræs er góð ástæða til að komast út og njóta fallegra haustdaga. Auk þess er fræsöfnun prýðileg fjölskylduskemmtun og er full ástæða til að hvetja vinnustaði til að fara í fræsöfnunarferðir.

Nánari upplýsingar veitir Áskell í síma 896 3313. Netfang: askell@land.is.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson