Í sumar, líkt og undanfarin sumur, hafa starfsmenn Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá verið á faraldsfæti við að mæla vöxt gróðursettra skóga á Íslandi. Heimsóttir voru 224 mælifletir á landsvísu og þar af fóru fram mælingar í 163 þeirra. Í hverjum mælifleti eru skráðar niður trjátegundir og þekja skógar, auk þess sem hæð og þvermál trjáa er mæld. Þá eru tekin gróður- og jarðvegssýni til frekari rannsókna. Fjórir sérfræðingar Rannsóknastöðvarinnar, auk fjölda nemenda og sjálfboðaliða, tóku þátt í verkefninu en verkefnisstjóri er Arnór Snorrason, skógfræðingur á Mógilsá.


Þeir mælifletir sem mældir voru á þessu ári voru flestir mældir árið 2007 og því verður hægt sjá hversu miklar breytingar hafa orðið síðastliðin fimm ár í vexti skóganna. Niðurstöðurnar eru m.a. notaðar strax til útreikninga á hversu mikið kolefni binst í íslenskum skógum og enda því í kolefnisbókhaldi Íslands sem skilað er inn árlega til Rammasamningsins um loftslagsbreytingar. Eins og fram kom í fréttum RÚV 10.ágúst 2012 bendir allt til þess að meiri kolefnisbinding eigi sér stað í íslenskum skógum en búist var við, þrátt fyrir niðurskurð til skógræktarmála hér á landi. Er það einkum tilkomið vegna aukins vaxtar skóga í hlýnandi veðurfari.


10092012-1

Texti: Arnór Snorrason, Björn Traustason og Edda S. Oddsdóttir+
Myndir: Íslensk skógarúttekt