Í meðfylgjandi grein Sigurlaugar Gissurardóttur, sem birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember s.l., er lagt til að stjórnun þjóðgarða verði "færð heim í hérað", að fyrirmynd landshlutabundinna skógræktarverkefna.

Laugardaginn 29. nóvember, 2003 - Miðopna

Vatnajökulsþjóðgarður

Skaftafellssýsla er syðst á Íslandi, þar sem landið opnar faðminn mót sól og sumri.

Skaftafellssýsla er syðst á Íslandi, þar sem landið opnar faðminn mót sól og sumri. Hún tekur fyrst við öllu, sem berst að úr suðurvegum, og þó liggur hún að sumu leyti næst helkulda norðurvega, við barm stærstu ísbreiðu landsins, Vatnajökuls, er ber höfuðið - Öræfajökul - hærra öllum frónskum fjöllum. Skaftafellssýsla er í sannleika, eins og skáldið segir: "Undarlegt sambland af frosti og funa, rammíslenzkust í þeim skilningi allra héraða landsins; jöklar skiftast á við eldfjöll - og jöklarnir sitja á eldfjöllum; eyðisandur við apalhraun; beljandi árnar umlykja gróðursæla byggð! Fjöllin í Vestursýslunni grasi gróin að hamrastöllum; í Austursýslunni ber; dimmbláar skriðurnar hanga frá brún og niður á jafnsléttu. - Allt einkennilegt og, í augum barna héraðsins, einkar - fagurt. "

Svo ritar Gísli Sveinsson sýslumaður í fyrsta kafla bókarinnar Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar, og gefin var út 1930. Sú stórbrotna náttúra sem þarna er lýst er auðlind okkar Skaftfellinga og stóriðjan er ferðaþjónusta. Lykill að farsælli þróun hennar er stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, "nútímaþjóðgarðs" en ekki þjóðgarðs eins og þeir eru, eða voru a.m.k. í hugum flestra, þjóðgarður þar sem svo virðist sem allt sé njörvað niður, öll stjórnun, hugmyndavinna og ákvarðanataka kemur að sunnan. Heldur þjóðgarður sem er undir stjórn heimamanna, þar sem þróun verður á forsendum þess fólks sem næst býr. Það hefur jú alla hagsmuni af því að vel gangi. Að þjóðgarðurinn sé fyrir fólkið í landinu eða öllu heldur fólk allra þjóða. Að verndun og uppbygging haldist í hendur og að vísindamenn fái svigrúm til að sinna sínum viðfangsefnum.

Í dag er það Umhverfisstofnun, sem fer með stjórn þjóðgarða á Íslandi, ef undan er skilinn Þingvallaþjóðgarður, sem hefur eigin stjórn, skipaða alþingismönnum. Skynsamlegt væri að fela stjórn heimamönnum, en breyta hlutverki Umhverfisstofnunar í að vera ráðgefandi fagaðili, auk Fornleifaverndar ríkisins, Jöklarannsóknarfélags og fleiri. Þessir aðilar yrðu svokölluð ráðgjafarnefnd stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Uppbygging, skipulag og framþróun yrði forsendum heimamanna og í tengslum við þær stofnanir og atvinnulíf sem fyrir er, öllum til hagsbóta. Mætti síðar yfirfæra á aðra þjóðgarða sem fyrir eru eða síðar verða stofnaðir.

Lítum á annað dæmi sem að mínu mati getur verið fyrirmyndin. Það stóra atvinnu- og byggðaverkefni sem er héraðsskógaverkefnin, þ.e. Suðurlandsskógar, Héraðsskógar og svo frv. Þarna hefur verið stofnað til landshlutabundinna verkefna. Þau hafa sérstaka fjárveitingu á fjárlögum, sína eigin stjórn, og sína eigin starfsmenn, sem við getum sagt að skiptist í yfirmenn, sem eru starfsmenn t.d. Suðurlandsskóga og undirmenn, sem eru bændurnir og/eða landeigendurnir. Undirmennirnir eru í raun yfirmennirnir, því engin skógrækt verður til án lands. Þarna er síðan skipulögð skógrækt í bland við aðra landnýtingu og hvað styður annað og styrkir byggðina. Skógrækt ríkisins sem eitt sinn drottnaði yfir skógrækt í landinu, situr ekki ein að þeim vexti sem er í skógrækt og stýrir öllu frá einum stað, sem gæti verið í Reykjavík, en var sem betur fer eitt sinn flutt austur á land og enginn man lengur eftir að hafi verið annars staðar. Heldur er hún nú ráðgefandi fagstofnun og í góðum tengslum við landshlutabundnu verkefnin. Góð sátt virðist ríkja og allir blómstra, allt í kringum landið. Þetta "model" getum við yfirfært á þjóðgarða.

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gefur gott tilefni til að breyta um stefnu í þessum málum. Skipuleggja stjórnsýslu hans og uppbyggingu þannig að allt umhverfis jökulinn verði íbúar varir við og þátttakendur í framþróun hans, byggðinni til framdráttar. Ég vil þó meina að megináherslan eigi að vera á svæðið sunnan jökuls til að byrja með, m.a. vegna núverandi framkvæmda norðan jökulsins. Skaftafellssýslur þurfa verulega á því að halda að kraftur verði settur í atvinnuuppbyggingu, eru klárlega jaðarsvæði. Sá virti maður próf. Roger Croft, fyrrum framkvæmdastjóri Scottish Natural Heritage (nátturuverndarstofnum Skotlands), nú einn af lykilmönnum í alþjóða náttúruverndarsamtökunum IUCN í Evrópu, hélt fyrirlestur um þjóðgarða, á vegum Landverndar og Landgræðslu ríkisins, í Öræfum sl. sumar. Próf Croft þekkir mjög vel til hér á landi og oft er leitað til hans varðandi mál er snerta landvernd og náttúruvernd. Hann var á þessum fundi spurður af aðstoðarmanni umhverfisráðherra, hvert væri mikilvægasta svæði Vatnajökulsþjóðgarðs og hvar áhrif hans yrðu mest. Án umhugsunar svaraði hann því til að það væri svæðið við suðurjaðar jökulsins og að því ætti að beina sjónum í fyrstu og í miklu og góðu samráði og samvinnu við íbúa. Í því efni gætu Íslendingar lært af Skotum.

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er mér eins og fjölmörgum íbúum þessara héraða mjög hugleikin og gætir orðið nokkurrar óþreyju hvernig mál skipast. Verkefnið hefur verið að taka á sig mynd, svona líkt og þegar púsluspili er raðað saman. Mér finnst að í dag sé ég búin að koma því saman. Ekki ég ein, heldur með samræðum við fjölmarga, af því að hlusta á það sem sagt er í kringum mig, t.d. á fjölmörgum kynningarfundum og ráðstefnum sem haldin hafa verið um málið. Fyrir liggja fjölmargar samþykktir og ályktanir heimamanna, einnig greinargerðir og skýrslur. Námsmenn hafa gert lokaverkefni sem tengjast fyrirhuguðum þjóðgarði. Unga fólkið sér þjóðgarð sem framtíðaratvinnumöguleika fyrir dreifbýlið.

Núverandi þjóðgarðsvörður í Skaftafelli hefur gert marga góða hluti, sem styrkt hafa ferðaþjónustu og rannsóknarstarf á þessu svæði og breytt þeirri ímynd sem íbúar höfðu af þjóðgarði. Við höfum ágætan umhverfisráðherra, sem sýnir þessu máli skilning og hefur unnið að því að koma málum í höfn. En til að svo megi verða þarf fleira að koma til. Auk stjórnunar, þarf að tryggja nægt fjármagn til uppbyggingar og reksturs, til heilsugæslu, löggæslu og björgunaraðgerða og það er eðlilegt að það skrifist á fleiri málaflokka en umhverfismál. Svo fjölþætt er verkefnið að með sanni má segja að það falli undir flest ráðuneyti ríkisstjórnar. Leita þarf eftir erlendu samstarfi og með því læra af reynslu annarra þjóða og byggja upp sambönd. Einnig þarf að koma af stað þróunarvinnu sem miðar að því að greina tækifæri í nágrenni þjóðgarðs og hvetja íbúa til að nýta sér þau í atvinnuskyni.

Á einum af fjölmörgum kynningarfundum sem haldnir hafa verið um málið, sagði einn fundarmanna orðrétt. "Mikið verkefni þarf trausta umgjörð." Þetta er mikilvægt að hafa að leiðarljósi, til þess að sómi verði að þessum stærsta og einstaka þjóðgarði í Evrópu og að hann verði sú byggðaaðgerð sem væntingar eru um. Nú er tímabært að bretta upp ermar og koma Vatnajökulsþjóðgarði í örugga heimahöfn. Fyrir okkur sem næst honum búa, fyrir aðra þá sem byggja þetta land, fyrir þegna annarra þjóða og fyrir börn framtíðarinnar.

Forfeðrum okkar þótti héraðið einkar fagurt og það er það enn. Þá var það sundurslitið af stórfljótum, mestu ófærum í landinu, sem eins og segir í áðurnefndri bók: "yrðu svo, nú og um allan aldur; þar er aðeins einn vegur til frambúðar, uppi yfir, í loftinu. Brimströndin ósigrandi, vötnin óbrúandi, sandurinn undirorpinn tíðum og háskalegum jökulhlaupum."

Stórfljótin sem áður voru ófær eru nú fær og þessi einstaka náttúra, mótuð af óblíðum náttúruöflunum, og var áður ógnvaldur og sú menning og mannlíf sem hún skóp eru auðlind Austur- og Vestur-Skaftfellinga í dag. Vatnajökulsþjóðgarður gerir okkur kleift að virkja hana.

Eftir Sigurlaugu Gissurardóttur

Höfundur er bóndi og í ráðgjafarnefnd um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.