Litið inn í Fræhúsið á Vöglum í Fnjóskadal þar sem fer fram fræframleiðsla á lerkiblendingnum Hrym o…
Litið inn í Fræhúsið á Vöglum í Fnjóskadal þar sem fer fram fræframleiðsla á lerkiblendingnum Hrym og ýmsar tilraunir sem snerta plöntugæði, fjölgun trjáplantna og plöntukynbætur. Frá vinstri: Valgerður Jónsdóttir, Þröstur Eysteinsson, Willemijn Stoffels, Robert van Schooten, Kathleen Ceulemans, Rakel Jónsdóttir og Aðalsteinn Sigurgeirsson. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Fulltrúar úr forystusveit hollenska félagsins Land Life Company hafa verið á ferð um landið undanfarna daga í fylgd skógræktarstjóra og fagmálastjóra Skógræktarinnar. Land Life hefur nú gert samninga við Skógræktina um endurreisn skóglendis á þremur stöðum og hefur áhuga á frekari verkefnum hérlendis.

Eins og við sögðum frá í  frétt hér á skogur.is á liðnu vori er félagið Land Life Company byggt á þeirri hugmyndafræði að tækni og markaðsleg nálgun geti drifið nýsköpun við endurhæfingu illa farins lands, einkum með endurreisn skóga. Á vefnum landlifecompany.com er bent á að í heiminum séu tveir milljarðar hektara af rofnu landi og þar vilji Land Life hjálpa til við endurhæfingu og eflingu lands. Fyrirtækið styður við skógræktarverkefni í 25 löndum í þremur heimsálfum. Höfuðstöðvar þess eru í Hollandi. Nú þegar fjármagnar Land Life skógrækt á þremur svæðum á Íslandi, í Skorradal, Haukadal og Þjórsádal, og hófst gróðursetning í vor. Félagið hefur áhuga á frekari verkefnum hérlendis.

Þremenningarnir frá Land Life Company sem nú eru á ferð um Ísland eru Willemijn Stoffels, framkvæmdastjóri aðgerða, Kathleen Ceulemans sem stýrir viðskiptaþróun og Robert van Schooten, verkefnastjóri aðgerða. Með þeim í för frá Skógræktinni eru Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri. Tilgangur ferðarinnar er að kynnast skógrækt á Íslandi, skoða skógræktarsvæði og möguleg ný svæði til skógræktar, kanna faglega hlið skógræktar á Íslandi og það rannsóknar- og þróunarstarf sem hér á sér stað á skógræktarsviðinu. Sem fyrr segir byggist starfsemi Land Life á því að nýta tækni og frjálsan markað sem drifkraft í endurreisn skóga á jörðinni. Félagið er rekið á markaðslegum forsendum og vinnur að endurreisn skóglendis á svæðum þar sem skógi hefur verið eytt. Það einbeitir sér að þeim hluta markaðshagkerfisins þar sem fyrirtæki vilja sýna ábyrgð og grípa til aðgerða í baráttunni við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. 

Í samtali við vef Skógræktarinnar segir Robert van Schooten að hugsjón Land Life Company sé að gera heiminum gott og stuðla að því að skógar vaxi á ný þar sem skógar hafa vaxið áður. Þetta geta ýmist verið skógar með upprunalegum tegundum en einnig skógar með aðfluttum tegundum þar sem það hentar betur og stuðlar að heilbrigðum og sjálfbærum skógarvistkerfum. Hvort tveggja er gert í þeim verkefnum sem Land Life vinnur að ásamt Skógræktinni. Robert segir að sóst sé eftir landi í stöðugri eigu til að tryggja sem best að skógarnir verði í landinu til frambúðar. Land í eigu ríkis eða sveitarfélaga hentar til dæmis vel í slík verkefni, ekki síst ef markmiðin með skógræktinni eru m.a. að búa til útivistarsvæði, styrkja samfélög fólks, efla seiglu eða þanþol náttúrunnar og þess háttar. Til að afla fjármagns er helst leitað samstarfs við fyrirtæki sem hafa svipaðar hugmyndir og Land Life um að gera heiminum gott, fremur en að þau geri kröfu um beinan ábata, auglýsingu fyrir starfsemi sína, nýtingu kolefnisbindingar eða annað þess háttar.

Fulltrúar Land Life og Skógræktarinnar stöldruðu við í Vaglaskógi þriðjudaginn 24. ágúst og fengu þar að kynnast fræframleiðslu á lerkiblendingnum Hrym ásamt kynbótastarfi Skógræktarinnar á mismunandi trjátegundum. Valgerður Jónsdóttir, verkefnastjóri fjölgunarefnis, sagði frá því. Rakel Jónsdóttir, sérfræðingur á rannsóknasviði, sagði frá rannsóknum sínum, meðal annars tilraunum á fjölgun lerkis með stiklingum sem lofa góðu. Rúnar Ísleifsson sýndi hópnum svo bálskýlið sem er í smíðum í Vaglaskógi, sagði frá starfsemi skógarvarðarins á Norðurlandi og fór loks með gestina um ungan skóg á Hálsmelum þar sem voru berir melar fyrir rúmum 30 árum en er nú gróskumikill og gjöfull skógur, gott dæmi um endurreisn skógarvistkerfis sem fellur að markmiðum Land Life Company.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson