Sigurður Ingi Friðleifsson flutti erindi um efni samantektarinnar á nýafstöðnu Umhverfisþingi sem ha…
Sigurður Ingi Friðleifsson flutti erindi um efni samantektarinnar á nýafstöðnu Umhverfisþingi sem haldið ver í Hörpu í Reykjavík.

Myndi skila ríflega 1,3 milljóna tonna nettóbindingu árlega

Fjórföldun aðgerðahraða í landgræðslu og fjölbreyttri skógrækt myndi leiða til þess að árið 2030 yrði búið að græða upp eða þekja skógi alls 485.000 hektara lands. Það myndi skila nettóbindingu í jarðvegi og gróðri um allt að ríflega 1.300 þúsund tonn CO2 árlega.

Þetta er lagt til í samantekt Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, sem hann vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra. Sigurður fjallaði um efni samantektarinnar á Umhverfisþingi sem haldið var í Hörpu í Reykjavík 20. október. Samantektin var gerð í tengslum við undirbúning aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum sem fráfarandi ríkisstjórn vann að. Sett er fram möguleg sviðsmynd um hvernig ná megi markmiðinu um 35-40 prósentum minni losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi 2030 frá því sem var 1990. 

Í samantektinni er farið yfir þróun olíunotkunar á Íslandi og því næst er kafli um samgöngur þar sem rætt er um fólksbíla og önnur farartæki. Fjallað er um sjávarútveg, aukna og víðtækari söluskyldu á endurnýjanlegu eldsneyti og teknar saman leiðir til að draga úr losun vegna brennslu olíu. Farið er yfir úrgangsmál, losun frá landbúnaði, ferðaþjónustu landnotkun og fleira.

Í inngangi segir að Ísland, ásamt Noregi og löndum ESB, hafi skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Nákvæm tala um prósentuhlutfall Íslands af þessum 40% muni liggja fyrir á næstu mánuðum. Allt útlit sé þó fyrir að við munum þurfa að draga úr losun um 35-40 prósent. Út frá því megi gróflega áætla að Ísland þurfi að minnka árlegan útblástur um allt að eina milljón tonna CO2 fyrir 2030.

Raktir eru ýmsir möguleikar sem Íslendingum standa til boða til að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda. Þar er m.a. fjallað um möguleika til að minnka losun frá landi og binda kolefni í jarðvegi og gróðri. Þótt „útlit sé fyrir að aðeins hluti slíkra aðgerða komi til með að falla innan skuldbindinga Íslands þá er gríðarleg losun frá framræstu votlendi og landi í hnignun hérlendis og brýnt að taka á þeim áskorunum. Einnig eru stórfelld tækifæri falin í kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Það er því einnig nauðsynlegt að greina þau ítarlega, velja aðgerðir og setja mælanleg markmið á þær svo hægt sé að hraða markvissri og fjölbreyttri endurbyggingu íslenskra vistkerfa og nytjaskóga.“ (Bls. 5)

Á bls. 26-27 segir orðrétt í samantektinni:

Koma má í veg fyrir að kolefni tapist úr jarðvegi með markvissri stjórn landnýtingar og beitarfriðun verst förnu svæðanna. Beina má landbótaaðgerðum, uppgræðslu og skógrækt í auknum mæli að því að stöðva rof í grónu landi og styrkja gróður þar sem hann nær ekki að viðhalda kolefnisforða jarðvegsins. Verulegur ávinningur getur því hlotist af því að draga úr losun frá landi í slæmu ástandi og jafnframt auka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri.

Vegvísir: Fjórfalda aðgerðahraða í landgræðslu og skógrækt til að auka kolefnisforða í jarðvegi úthagavistkerfa og efla fjölþætta virkni kerfanna.

Ávinningur: Fjórföldun aðgerðahraða í landgræðslu og fjölbreyttri skógrækt mun leiða til þess að árið 2030 verður búið að græða upp eða þekja skógi, alls 485.000 ha lands. Það mun skila nettóbindingu í jarðvegi og gróðri um allt að ríflega 1.300 þúsund tonnum CO2 árlega.

Raunhæfni: Í skýrslu HHÍ frá febrúar sl. um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er vitnað í að rannsóknir sýni að með landgræðslu binst kolefni í jarðvegi og gróðri yfir lengri tíma (hraði bindingar fer eftir landgæðum og aðstæðum). Í skýrslunni kemur fram að kolefnisbindingin er metin um 100-500 tonn CO2 ígildi á km2 á ári. Mat eða spá bindingar vegna landgræðsluverkefna ræðst af forsendum um árlegt umfang, árlega bindingu og tímabil bindingar. Miðað er við meðaltalsbindingarstuðulinn 2,1 tonn CO2 á ha á ári, óháð aðferð.

Samkvæmt héraðsáætlun Landgræðslunnar frá 2015 eru tæplega 800.000 ha af illa förnum vistkerfum neðan 400 metra hæðar yfir sjó sem mögulegt er að endurheimta með fjölbreyttum landgræðsluaðgerðum. Mikið af því landi hentar einnig fyrir aukna útbreiðslu náttúruskóga og jafnvel til nytjaskógræktar.


Í HHÍ skýrslunni er einnig vitnað í að rannsóknir sýni að verulegt magn kolefnis binst í skógi. Þar er nefnt að umtalsverður breytileiki er á kolefnismagni eftir aldri, trjátegund og staðsetningu. Það er á bilinu 60 til 1.120 tonn CO2 á km2 á ári . Rannsóknir hafa líka leitt í ljós að verulegt magn kolefnis binst í jarðvegi íslenskra skóga, eða 130-200 tonn CO2 á km2 á ári. Endurheimt vistkerfa (þ.m.t. náttúruskóga) er mikilvæg samfélagsleg loftslagsaðgerð sem hefur einnig jákvæð áhrif á aðrar vistkerfaþjónustur (vatnsmiðlun, frjósemi jarðvegs, lífmassaframleiðslu, líffræðilegan fjölbreytileika, skjól o.fl.). Ábúendur á lögbýlum ættu að fá styrki frá ríkinu til endurheimtar og viðhalds fjölbreyttra vistkerfa. Styrkirnir gætu fallið undir landgreiðslur innan búvörusamninga eða annars styrkjakerfis landbúnaðarins.

Nytjaskógrækt er einnig mjög mikilvæg loftslagsaðgerð í samfélagslegu og hagrænu samhengi, ásamt því að hafa jákvæð áhrif á aðrar vistkerfaþjónustur. Síðast en ekki síst leggur hún til timbur til nota á innanlandsmarkaði.

Nauðsynlegt er að koma á samræmdu kerfi landgreiðslna innan landbúnaðargeirans þar sem ábúendur á lögbýlum geta sótt um fjölbreytta styrki til landbóta og viðhalds landgæða á jörðum sínum.

Samantekt Sigurðar Inga Friðleifssonar er aðgengileg á vef ráðuneytisins:

Texti og myndir: Pétur Halldórsson