Alþjóðlegur dagur skóga er í dag, 21. mars. Sameinuðu þjóðirnar helga daginn fræðslu að þessu sinni með yfirskriftinni „lærið að unna skógum“.

Skógræktin vinnur að því að efla fræðslusíður sínar á skogur.is, ekki síst það efni sem ætlað er skólafólki. Verið er að uppfæra verkefnablöð í verkefnabanka Lesið í skóginn og nýlega hefur verið sett inn lesefni fyrir kennara sem vilja tileinka sér kennslu utan dyra og nota skóga sem vettvang til fræðslu í ólíkum námsgreinum. Á vef Menntamálastofnunar er að finna kennsluefni um áhugaverða hluti sem tengjast skógum og lífinu í skógum og það hefur verið sett inn á síðu á vef Skógræktarinnar með námsefni fyrir börn og unglinga. Skógræktin hvetur allt fólk til að skoða fræðsluefnið sem er að finna á vef stofnunarinnar og koma með ábendingar um efni sem þarna ætti heima eða betrumbætur sem mætti gera.

Eins og fram hefur komið hér á vefnum efndi Skógræktin til samstarfs við Krakkarúv Ríkisútvarpsins og Ártúnsskóla í Reykjavík um að búa til innslög um skóga og fræðslu. Nú hafa verið sýnd tvö innslög af þremur í Krakkafréttum Sjónvarpsins og það síðasta verður sýnt í kvöld, á alþjóðlegum degi skóga. Krakkarúv er á dagskrá Sjónvarpsins klukkan 18.50. Klukkan 18.30 er líka Útvarp Krakkarúv á dagskrá Rásar 1. Á alþjóðlegum degi skóga í dag verður rætt við skólastjóra Ártúnsskóla og tvo nemendur sem hafa tekið þátt í skógarfræðslu í grenndarskógi skólans.

Skógræktin mun vinna meira myndefni úr þeim efniviði sem aflað var við vinnslu fyrir Krakkarúv og birtist það á vefnum á næstunni.

Skógasvið FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sendir að venju frá sér myndband á alþjóðlegum degi skóga. Smellið á myndina til að horfa:

Gleðilegan alþjóðlegan dag skóga!

Texti: Pétur Halldórsson