Að minnka náttúruvá með vistfræðilegum aðferðum

Vistfræðilegar aðferðir til að minnka náttúruvá eru viðfangsefni dr Virginiu Dale í fyrirlestri sem hún flytur miðvikudaginn 19. október í sal Þjóðminjasafnsins í Reykjavík. Þar ræðir hún um þann lærdóm sem draga má af gosinu í eldfjallinu St. Helens 1980.

Virginia Dale er í fremstu röð þeirra vísindamanna sem hafa rannsakað viðbrögð vistkerfa við gosinu í eldfjallinu St. Helens 1980 og er einn aðalritstjóra bókar um þær rannsóknir. Hún sat einnig í hópi vísindamanna sem lögðu til efni vísindaúttekt milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, Intergovernmental Panel on Climate Change Scientific Assessment. Fyrir það verk hlaut hópurinn friðarverðlaun Nóbels árið 2007 ásamt Al Gore. Virginia Dale hefur hlotið ýmsar aðrar viðurkenningar fyrir störf sín.

Vistfræðilegar aðferðir til að minnka náttúruvá vegna eldgosa eru Íslendingum sannarlega ekki ókunnar. Þar er nærtækast að nefna samvinnuverkefni Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og fjölmargra fleiri við birkiskóggræðslu í Hekluskógum. Fleiri slík verkefni eru í bígerð.

Fyrirlestur Virginiu Dale verður í sal Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu í Reykjavík og hefst kl. 12. hann stendur í um þrjá stundarfjórðunga.

Texti: Pétur Halldórsson