Mynd: Þröstur Eysteinsson
Mynd: Þröstur Eysteinsson
Á myndinni sem hér fylgir má sjá hvar skógræktar- og fuglaáhugamennirnir Örn Óskarsson og Gaukur Hjartarson standa í birkilundi í Hellisskógi við Selfoss. Báðir eru þeir vel yfir meðalhæð íslenskra karla og má af því sjá að birkið er 4-5 m hátt. Reyndar er það hæsta komið yfir sex metra. Það sem er merkilegt við það er að Örn gróðursetti trén fyrir aðeins 11 árum síðan og þá voru þetta ársgamlar bakkaplöntur. Þær hafa aldrei fengið áburð. Hér er því um glæsilegan vaxtarhraða að ræða, auk þess sem trén eru öll einstofna og óvenju beinvaxin af íslensku birki að vera.

Birkið er af yrkinu Embla sem er afrakstur kynbótastarfs Gróðurbótafélagsins og fræið var framleitt í gróðurhúsi í Gróðrarstöðinni Mörk. Greinilegt er að úrvalið hefur skilað sér í mikilli vaxtargetu ekki síður en góðu vaxtarformi. Vaxtargetan næst svo fram af því að gróðursett var í mjög frjósamt land í svolitlum halla og í skjóli fyrir suðvestanátt. Óvalið birki hefði ekki náð þessum vexti á sama stað og Embla hefði ekki náð þessum vexti á rýrara landi.  


Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóganna