Fyrstu trén skreytt eftir 20-25 ár

Þess er vænst að kynbættur fjallaþinur verði vinsælasta jólatréð hér á landi þegar fram líða stundir. Þetta íslenska úrvalstré geti þá keppt við danskan nordmannsþin sem í dag er mest selda jólatréð. Þetta segir í frétt á vef Ríkisútvarpsins og fjallað var um málið í fréttum Sjónvarps. Rætt er við Brynjar Skúlason skógerfðafræðing sem stýrir trjákynbótum hjá Skógræktinni.

Fréttin er á þessa leið:

Það eru átján ár síðan skógræktarmenn hér á landi söfnuðu fræjum af fjölmörgum afbrigðum af fjallaþin á útbreiðslusvæði hans norðan frá Alaska, suður til Arizona í Bandaríkjunum.

Fundu besta stofn fjallaþins í Arizona

Á þessum átján árum er nú búið að rækta og prófa alla þessa stofna í þeim tilgangi að þróa besta og sterkasta fjallaþininn. „Og það kom í ljós að efniviðurinn frá Nýju-Mexíkó og Arizona var það sem reyndist best til jólatrjáaræktar,“ segir Dr. Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni.


Bestu plönturnar gróðursettar í tveimur fræreitum

Um 50 greinar af bestu plöntunum hafa nú verið gróðursettar saman að Vöglum á Þelamörk. Þarna eiga þær að geta frjóvgað hver aðra og myndað úrvalsfræ. „Við erum með tvo fræreiti hérna. Og það er svo skemmtilegt með fjallaþininn að hann er annarsvegar fagurblár og hinsvegar hreingrænn. Þannig að við erum annarsvegar með frægarð sem er með græna fjallaþininn og svo líka annan sem þá er með þessum bláa,“ segir Brynjar.

Íslenskt úrvalstré keppi við danskan normannsþin

Innfluttur normannsþinur hefur lengi verið vinsælasta jólatréð á Íslandi. En þessi kynbætti fjallaþinur á að verða svar við því og Brynjar vonast til að langflest tré sem vaxa upp af þessu nýja úrvalsfræi verði að fallegum jólatrjám.

25 ár þangað til fyrstu jólatrén verða tilbúin

En tíminn líður gjarnan hægt í skógrækt og það geta liðið 25 ár þangað til byrjað verður að skreyta jólatré sem eru upprunnin úr frægarðinum á Vöglum. Brynjar segir að plönturnar verði farnar að búa til fræ eftir um það bil 10 ár og þá geti tekið 10 til 15 ár í viðbót að rækta jólatrén. „Fjallaþinurinn er tiltölulega líkur normannsþininum auðvitað, nema að þetta er grennra tré getum við sagt og tekur minna pláss. Og hann er algerlega barrheldinn, eins og normannsþinurinn er. Þannig að við teljum að þetta sé hið fullkomna framtíðartré fyrir íslensk heimili,“ segir hann.