Hjá EUFORGEN þykir forvitnilegt að miðla því sem unnið er að á Íslandi við aðlögun þessi efniviðar s…
Hjá EUFORGEN þykir forvitnilegt að miðla því sem unnið er að á Íslandi við aðlögun þessi efniviðar sem notaður er til nýskógræktar. Hér er kvikmyndagerðarfólkið ásamt Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra í Fræhúsinu á Vöglum þar sem lerkiblendingurinn 'Hrymur' verður til.

Sjónum beint að trjákynbótastarfi til nýskógræktar

Nýlega var á ferð hér á landi kynningarstjóri EUFORGEN, samstarfs um vernd og nýtingu erfðaauðlinda skóga, ásamt tveimur kvikmyndagerðarmönnum. Þau söfnuðu efni í myndband um það starf sem Skógræktin vinnur að til að kynbæta efnivið til skógræktar á skóglausu landi.

Ewa Hermanowicz sér um samskiptamál hjá EUFORGEN, heldur úti vefsíðu samstarfsins, skipuleggur viðburði og fleira af þeim toga. Myndbandagerð er vaxandi þáttur í slíku starfi og hefur EUFORGEN unnið töluvert að undanförnu með breska kvikmyndafyrirtækinu Duckrabbit og þaðan voru þeir Oli Sharpe myndatökumaður og Benjamin Chesterton upptökustjóri.


Tilgangur ferðarinnar var að búa til stutt myndband um notkun kynbætts efniviðar í nýskógrækt á skóglausu landi. Þremenningarnir dvöldu á Héraði þar sem þau skoðuðu skóga og kynntu sér ýmislegt í starfi Skógræktarinnar. Farið var að Vöglum þar sem kynbótastarfið var skoðað í Fræhúsinu, víxlun rússa- og evrópulerkis til framleiðslu á yrkinu ´Hrym´, kynbætur á fjallaþin til jólatrjáaframleiðslu og fleira. Einnig var farið á Hólasand þar sem lerki er notað til uppgræðslu á auðn og ýmsar tilraunir gerðar og sömuleiðis var farið í Kjarnaskóg á Akureyri og m.a. litið á plöntuframleiðslu Sólskóga.



Mikið efni var tekið upp í ferðinni og þar sem EUFORGEN er ekki gróðafyrirtæki gefst Skógræktinni færi á að nýta sér eitthvað af því myndefni sem tekið var upp í ferðinni. Áhugavert verður líka að sjá myndbandið sem gefið verður út á vef EUFORGEN þegar það verður tilbúið. Sagt verður frá því hér á skogur.is þegar þar að kemur.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á Vöglum og Hólasandi á dögunum þegar Ewa, Oli og Benjamin voru þar á ferð ásamt Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra, Brynjari Skúlasyni skógerfðafræðingi og Pétri Halldórssyni.

Kvikmyndahópur EUFORGEN ásamt starfsmönnum Skógræktarinnar.
Frá vinstri: Oli Sharpe, Brynjar Skúlason, Benjamin Chesterton, Þröstur
Eysteinsson, Ewa Hermanovicz og Pétur Halldórsson.

Þröstur og Brynjar standa hér við myndarleg lerkitré sem vaxið hafa hjálparlaust upp úr grýttum mel á Hólasandi. Þótt mörg trjánna séu margstofna og bækluð af harðri lífsbaráttunni á sandinum eru líka mörg bein og ekki síður efnileg en víða er í skógum landsins.

Birkið á Hólasandi ætlar að þroska mikið fræ í sumar sem á örugglega eftir að spíra þar sem það nær góðu seti. Sjálfgræðsla birkis er greinilega hafin á Hólasandi.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson