Frá jólatrjáadegi í Haukadalsskógi. Mynd: Hreinn Óskarsson.
Frá jólatrjáadegi í Haukadalsskógi. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Hressandi og skemmtileg skógarferð í desember

Skógrækt ríkisins, skógræktarfélög og fleiri bjóða fólk velkomið í skógana fyrir jólin til að velja rétta jólatréð. Slík ferð er orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra.

Þegar jólatré eru sótt í skóginn fær fólk lánaða sög og fylgir síðan leiðbeiningum starfsfólks um hvar megi sækja tré og hvernig bera skuli sig að.

Tré sem fólk sækir sjálft í skóginn hafa ákveðið gildi umfram tré sem keypt eru tilbúin á jólatrjáamörkuðum. Hugtakið „okkar tré“ fær aukna merkingu auk þess sem þetta er skemmtileg útivera í skógi á árstíma þegar fólk sækir minna í skóginn en annars er. Þessi aðferð við sölu jólatrjáa tengir fólk betur við skógrækt í landinu. Afraksturinn þess sem skóginn ræktar fer í að rækta meiri skóg.

Hér fyrir neðan má sjá hvar hægt er að ná sér í tré í skógum Skógræktar ríkisins fyrir þessi jól ásamt fleiri upplýsingum. Neðst er hlekkur á jólatrjáavef skógræktarfélaganna og einnig á fræðsluvef Skógræktar ríkisins um jólatré og ræktun þeirra.

 Austurland

Ekki verður auglýstur sérstakur dagur í ár þegar fólk getur komið og fellt sér jólatré í austfirskum skógi. Trén á svæðinum sem selt hefur verið úr á síðastliðnum árum eru orðin of stór. Fólk sem vill sækja sér tré getur þó komið virka daga í Hallormsstaðaskóg og fengið að sækja sér tré. Þá er farið í starfstöð Skógræktar ríkisins á Hallomsstað eða haft samband við skógarvörð í síma 470-2070.

Suðurland

Opið verður fyrir jólatrjáahögg í Haukadalsskógi dagana 12.-13. og 19.-20. desember. Verð trjáa undir 2 m hæð er 5.000 kr. og 2-4 m 6.000 kr. óháð tegund. Í skóginum má finna stafafuru, rauðgreni og blágreni

Norðurland

Skógrækt ríkisins heldur jólamarkað í Vaglaskógi laugardaginn 12. desember. Þar verða til sölu jólatré, greinar, eldiviður og fleira úr Vaglaskógi, þingeyskt handverksfólk selur ýmsan varning og skólabörn í Stórutjarnaskóla veitingar til ágóða fyrir ferðasjóð sinn. Markaðurinn hefst klukkan 13 og stendur til kl. 17.

Almenningi er ekki boðið að höggva sín eigin jólatré í þjóðskógunum á Norðurlandi en tvær helgar í desember býður Skógræktarfélag Eyfirðinga öll sem vilja velkomin í Laugalandsskóg á Þelamörk þar sem fólk getur fundið sér tré og sagað. Tréð kostar 7.000 kr. óháð stærð. Í kaupbæti er ketilkaffi og kakó, jafnvel piparkökur ef vel liggur á skógarfólki. Í Laugalandsskógi er aðallega stafafura en einnig má finna stöku rauðgreni og jafnvel blágreni. Opið verður 12.-13. og 19.-20. desember frá klukkan 11 til 15

Vesturland

Helgina 12.-13. desember  milli kl. 11 og 16 getur fólk komið í Selskóg í Skorradal og sótt sér tré í skóginn. Sömuleiðis verður Skógrækt ríkisins með jólatré til sölu á jólamarkaði sem konur á Hvanneyri og sveitunum í kring standa að 19. desember.