Timbur úr íslenskum skógi.
Timbur úr íslenskum skógi.

Alþjóðlega lífhagkerfissambandið WBA ályktar í Marrakess

Leggja ætti megináherslu á líforku og endurnýjanleg hráefni til að ná megi markmiðum Parísarsamkomulagsins fyrir árið 2030. Þetta er meðal skilaboða í yfirlýsingu sem alþjóðlega lífhagkerfis­sambandið WBA sendi frá sér á loftslags­ráðstefnunni sem nú stendur yfir í Marrakess í Marokkó.

Skammstöfunin WBA stendur fyrir World Bioenergy Association.  Sambandið brýnir fulltrúa á tuttugustu og annarri loftslags­ráðstefnunni í Marrakess til að grípa þegar í stað til aðgerða og sjá til þess að á hverju ári héðan í frá dragi úr notkun jarðefna­eldsneytis. Þjóðir heims eru hvattar til að beita kolefnissköttum til að ná megi markmiðum Parísarsamkomulagsins. Líforka í bland við aðra endurnýjanlega kosti skuli vera eitt meginverkfærið í þessari vinnu.

Hægagangur

COP22-ráðstefnan í Marrakess hefur verið kynnt með þeirri yfirskrift að nú sé kominn tími til aðgerða. Hægt þykir þó miða. Ef haldið verður áfram að losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið í sama mæli og nú er gert verður á næstu tuttugu árum uppurið það magn koltvísings sem talið er óhætt að losa án þess að illa fari. Í sumum löndum er enn unnið að nýjum fjárfestingum á sviði jarðefnaeldsneytis. Í hverju slíku verkefni felst svo og svo mikill fyrir fram ákveðinn útblástur mörg ár fram í tímann.

Opinberar niðurgreiðslur á þessu sviði tíðkast líka enn. Ekki gengur nógu hratt að örva fjárfestingar í endurnýjan­legri orku og hráefnum með niðurgreiðslum, skattaafslætti, styrkjum eða öðrum hvetjandi aðgerðum. Ekki virðist að mati WBA-sambandsins duga það sem kveðið er á um í Parísarsamkomulaginu að hver þjóð skipuleggi eigin aðgerðir til að ná markmiðunum, það sem kallað er á ensku Intended Nationally Determined Contributions eða INDC.

Ýmis ljós í myrkrinu

Samt sem áður er margt jákvætt að frétta að mati alþjóðlega lífhagkerfissambandsins. Verðið á endurnýjanlegri orku og hráefnum lækki nú hratt og í sumum lönd­um sé svo komið að ódýrara sé að nota endurnýjanlega orku en jarðefna­eldsneyti. Víða að berist fregnir um verk­efni sem ganga vel í einstökum löndum, héruðum, borgum, þorpum o.s.frv. Þar megi finna fyrirmyndir að lágkolvetnis­samfélögum sem byggð eru á hringrásarhagkerfinu og eru bæði visthæf, hagkvæm og búsældarleg.

Skýr skilaboð

WBA-sambandið bendir fulltrúum COP22-ráðstefnunnar á nokkur atriði sem vert sé að huga að til að flýta megi fyrir breytingunni:

  • Kolefnissattur er mikilvægt verkfæri: Að leggja á kolefnisskatt í hverju landi fyrir sig er öflugasta leiðin til að fá þá sem menga til aðgerða gegn loftslagsvandanum. Þetta er einfaldasta leiðin til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, auka orkunýtni og gera endurnýjanlega orku og hráefni samkeppnishæfari.
  • Hætta að leggja áherslu á að gera jarðefnatæknina grænni og einbeita sér í staðinn að því að stöðva notkun jarðefnaeldsneytis: Lífsnauðsynlegt er að gera áætlun í öllum löndum um að hverfa frá olíuhagkerfinu með því að draga markvisst úr notkun jarðefnaeldsneytis.
  • Hætta að treysta á tækni sem ekki hefur sannað sig: Tæknilausnir eins og hrein kol, binding kolefnis í jörð og aðrar slíkar gera ekki annað en auka notkun jarðefnaeldsneytis og hjálpa því ekki til við að leysa loftslagsvandann. Þessar kolefnislausnir eru dýrar og hafa ekki komist af tilraunastiginu enn. Þær eru því ekki fýsilegar og varasamt er að reiða sig á tækni sem ekki hefur sannað sig.
  • Engar nýjar fjárfestingar í innviðum olíuhagkerfisins: Forðast ber fjárfestingar í olíuhagkerfinu svo sem með nýjum gasleiðslum enda tryggja þær áframhaldandi losun og binda fé sem ella mætti nýta til fjárfestinga í hringrásarhagkerfinu.
  • Hætta niðurgreiðslum til olíuhagkerfisins: Taka verður markviss skref til að leggja af slíkar niðurgreiðslur.
  • Ýta undir alla endurnýjanlega orkutækni: Alla tækni á sviði endurnýjanlegrar orku svo sem sólarorku, jarðvarmaorku, vatnsorku, líforku og vindorku verður að byggja hratt upp í öllum löndum og landshlutum og taka mið af þeim möguleikum sem eru vænlegastir á hverjum stað.

Full alvara með Parísarsamkomulaginu

Loks segir í yfirlýsingu WBA-sambandsins að fulltrúar stjórnvalda í hverju landi fyrir sig, sem nú sitja COP22-ráðstefnuna, ættu að láta það skýrt í ljós við fjárfesta, markaði, almenning og fyrirtæki í löndum sínum að þeim hafi verið full alvara með fullgildingu Parísarsamkomulagsins. Heimurinn þarfnist jákvæðrar yfirlýsingar um að einmitt núna sé tími kominn til aðgerða.

Heimild: WBA Declaration to COP22
Íslenskur texti og mynd: Pétur Halldórsson