Kolefnisbinding felur í sér tækifæri fyrir bændur

- Daði Már Kristófersson, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands

( Bændablaðið, 15. maí 2007)

 

Hlýnun jarðar vegna gróðurhúsaáhrifanna hefur verið mjög til umræðu á síðustu misserum í kjölfar alþjóðlegrar umræðu um þennan aðsteðjandi vanda. Vestrænt samfélag er háð brennslu jarðefnaeldsneytis og erfitt er að sjá í fljótu bragði hvernig mögulegt er að knýja fram nauðsynlegan samdrátt í losun án verulegra áhrifa á lífskjör.

Fyrstu skrefin hafa þó verið tekin. Nægir þar að nefna samning Sameinuðu þjóðanna sem kenndur er við Kýótó. Nýleg lög frá Alþingi um losun svokallaðra gróðurhúsalofttegunda takmarka útblástur gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju í takt við skuldbindingar Íslands samkvæmt Kyótóbókuninni. Núverandi stóriðja fær úthlutað útblásturskvóta en gert er ráð fyrir að ný stóriðjufyrirtæki verði að afla sér réttar til útblásturs með „…fjármögnun verkefna á sviði bindingar kolefnis í gróðri og jarðvegi, með þátttöku í verkefnum á sviði loftslagsvænnar þróunaraðstoðar eða sameiginlegrar framkvæmdar eða kaupum á losunarheimildum erlendis frá.“ (Lög nr. 65 28. mars 2007). Markaðir með slíkar mótvægisaðgerðir blómstra víða um þessar mundir. Sem dæmi stendur flugfarþegum víða um heim til boða að kaupa bindingu kolefnis sem samsvarar þeirri mengun sem flugferð þeirra skapar. Flest bendir því til þess að möguleikarnir til að selja þá þjónustu að binda kolefni séu miklir og vaxandi.

Tré og aðrar plöntur sækja efnið í eigin vefi að stærstum hluta til andrúmsloftsins. Ljóstillífun gerir þeim kleift að breyta koltvísýringi úr andrúmsloftinu í lífrænt efni með hjálp sólarljóssins. Plöntuvefir eru þar af leiðandi ríkir af kolefnissamböndum.

Til dæmis er kolefni um helmingur þurrefnis í viði. Ef hægt er að auka bundið kolefni, hvort sem er í vefjum plantna eða í jarðvegi, dregur það úr magni koltvísýrings í andrúmsloftinu. Þessa viðbótarbindingu er mögulegt að bjóða sem markaðsvöru. Að rækta skóg í dæmigerðu íslensku mólendi er dæmi um breytingu á gróðurfari sem hefur verulega aukna bindingu í för með sér, sem síðan er hægt að selja. Íslenskir landeigendur eiga því umtalsverða möguleika á að bjóða kolefnisbindingu til sölu enda er Ísland að stórum hluta gróðurrýrt og því hægt að auka verulega það kolefni sem liggur bundið í plöntum og jarðvegi hér á landi.

 

Skilgreiningar og eftirlit

Hugmyndin að kolefnisbindingu er einföld. Aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu vegna útblásturs koltvísýrungs á einum stað er eytt með bindingu koltvísýrings á öðrum stað. Skógrækt á skóglausu landi veitir einstakt tækifæri til kolefnisbindingar í stórum stíl. Hér á landi er nær einungis um slíka skógrækt að ræða og þarmeð ættu möguleikar íslenskra skógarbænda til að bjóða kolefnisbindingu að vera miklir. Þó er að nokkrum hlutum að hyggja þegar kemur að skilgreiningu kolefnisbindingar sem söluvöru.

Í fyrsta lagi er rétt að undirstrika að það er viðbótarbindingin sem er seld, þ.e. binding umfram það sem landið batt áður. Þannig er ekki talið að þroskaður skógur bindi neitt í þessu samhengi því jafnmikið losni úr honum af kolefni vegna nytja og sem binst við vöxt.

Í öðru lagi getur kolefni sem bundið er í skógi auðveldlega losnað á skömmum tíma út í andrúmsloftið aftur, t.d. við skógarelda. Til að kolefnisbinding sé raunhæf söluvara þarf að skilgreina hana nákvæmlega. Hvað er verið að selja? Hvert er innihald þeirrar vöru? Taka verður á þessu atriði í skilgreiningu kolefnisbindingar sem söluvöru.

Jafnframt þarf að taka á gildistíma bindingarinnar. Óraunhæft virðist að gera ráð fyrir að bindingin gildi um alla framtíð. Eðli skógræktar er slíkt að mun eðlilegra er að um vistun sé að ræða yfir ákveðið skilgreint tímabil. Lengd tímabilsins mundi ákvarðast af þáttum eins og líftíma skógarins og lengd kolefnishringrása.

Síðasta skilyrðið sem kolefnisbinding þarf að uppfylla er að hún sé framseljanleg, þannig að annar aðili en landeigandi geti átt hið bundna kolefni. Þetta undirstrikar nauðsyn öflugs eftirlitskerfis með kolefnisskógum. Hagsmunir landeiganda og þeirra sem keypt hafa kolefnisbindingu af honum þurfa ekki að fara saman. Landeigandi vill hámarka afrakstur af landi sínu, sem getur þýtt breytingar á landnotkun sem skerða rétt þeirra sem keypt hafa kolefnisbindingu af honum. Eftirlitskerfið þarf að tryggja að landeigandi geti ekki rýrt eign kaupenda nema á móti komi bætur af einhverjum toga.

 

Tvenns konar markaður

Tveir markaðir eru í mótun hvað varðar kolefnisbindingu, eins og áður var nefnt. Í fyrsta lagi er það sá markaður fyrir bindingu til mótvægis við stóriðju sem gert er ráð fyrir í 14. gr. nýsamþykktra laga um losun gróðurhúsalofttegunda. Ef allar stóriðjuáætlanir sem viðraðar hafa verið upp á síðkastið eiga að verða að veruleika er ljóst að Ísland fer verulega fram úr losunarheimildum sínum. Þarna liggja að sjálfsögðu miklir möguleikar fyrir landgræðslu og skógrækt að bjóða bindingu til mótvægis. Þetta mun hins vegar verða kröfuharður markaður m.t.t. skilgreiningar bindingarþjónustunnar og eftirlits.

Í öðru lagi er markaðurinn fyrir frjálst mótvægi vegna eigin útblásturs, t.d. flugferða og aksturs. Slíkrar bindingar er ekki krafist skv. lögum og þar af leiðandi er sá markaður ekki eins kröfuharður hvað varðar skilgreiningar og eftirlit. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að ekki þurfi nákvæmar skilgreiningar og eftirlit heldur einungis að mistök verða væntanlega ekki eins dýr. Vísir að slíkum markaði er jafnframt þegar til hér á landi í Kolviðarverkefninu.

Eðlilegt er að spyrja hvort íslenskir skógarbændur eiga ekki að hella sér út í að selja kolefnisbindingu á þessum síðarnefnda markaði og þannig stuðla að því að þau vandamál sem tæpt hefur verið á verði leyst áður en fyrirsjáanleg aukning verður í eftirspurninni eftir kolefnisbindingu frá stóriðju.


Hver er vandinn og hvað er til ráða?

Gróðurhúsaáhrifin svokölluðu, þ.e. hlýnun loftslags á jörðinni vegna hækkandi hlutfalls vissra lofttegunda, s.s. koltvísýrings, er meðal alvarlegustu umhverfisvandamála sem að íbúum jarðarinnar steðjar. Hækkandi hlutfall koltvísýrings má að miklu leyti rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis eins og kola og olíu. Ef marka má mat sérfræðinga á kostnaði af fyrirsjáanlegri hlýnun jarðarinnar lítur út fyrir að verulegur vantalinn kostnaður sé af mengandi starfsemi.

Álver, svo tekið sé dæmi, greiðir markaðsverð fyrir rafskautin sem það notar, en rafskaut í álverum innihalda kolefni sem losnar við álbræðsluna. Markaðsverð rafskauta endurspeglar hins vegar einungis framleiðslukostnað þeirra, en ekki þann kostnað sem aukinn koltvísýringur í andrúmsloftinu veldur. Þessi vantaldi kostnaður er t.d. tjón vegna þurrka, óveðurs, hækkandi sjávarstöðu o.s.frv. Álverið, eins og aðrir sem standa fyrir útblæstri koltvísýrings, valda með starfsemi sinni tjóni og velta kostnaðinum af því yfir á þá sem fyrir tjóninu verða.

Út frá sjónarhóli samfélagsins er kostnaður við álbræðslu vantalinn, því ekki er tekið tillit til umhverfistjónsins sem samfélagið verður fyrir þegar umfang framleiðslunnar er ákveðið. Réttlátara væri að verð rafskautanna endurspeglaði bæði framleiðslukostnað þeirra og kostnað vegna áhrifa á hlýnun jarðar. Í hagfræði er talað um markaðsbrest þegar fyrirtæki valda utanaðkomandi aðila tjóni með þessum hætti án þess að bæta það. Útblástur á koltvísýringi er sígilt dæmi um markaðsbrest.

 

Skattlagning eða kvótakerfi?

Hvað er til ráða? Lausnin felst í því að tekið sé tillit til þess tjóns sem framleiðslan veldur og dregið úr starfseminni þannig að hagnaður af framleiðslunni nægi a.m.k.

til að bæta tjónið sem hún veldur. Hagnaður samfélagsins er mestur þegar hagnaður af því að menga einni einingu meira er jafn mikill og skaðinn sem mengunin veldur.

Meiri samdráttur í mengun mundi leiða til þess að meiri hagnaður glataðist en nemur tjóninu. Það þýðir minni hagnaður samfélagsins í heild. Minni samdráttur í mengun mundi leiða til þess að hagnaðurinn dygði ekki fyrir tjóninu, sem líka dregur úr hagnaði samfélagsins.

Þessu markmiði, að draga mátulega úr mengun, má ná með mismunandi hætti. Hægt er að skattleggja losun eða setja á losunarkvóta. Markmiðið í báðum tilfellum er að draga úr umfangi starfsemi sem mengar. Skattheimtan leiðréttir framleiðslukostnað þannig að fullt tillit er tekið til þess tjóns sem framleiðslan veldur. Skatttekjurnar má síðan nota til að bæta það tjón sem rekja má til mengunarinnar. Á hliðstæðan hátt má takmarka það magn sem hvert fyrirtæki má menga. Þannig er dregið úr þeim skaða sem mengunin veldur. Öfugt við skattlagningu er ekki gefið að í kvótakerfi felist neinir möguleikar til að bæta tjónið sem mengunin veldur. Það fer alfarið eftir því hvernig kvótanum er úthlutað. Sé hann gefinn endurgjaldslaust, eins og tilfellið er í lögum um losun gróðurhúsalofttegunda sem Alþingi samþykkti nýverið, er ekki gert ráð fyrir neinni kostnaðaraukningu stóriðjufyrirtækjanna. Losunin, og þar með tjónið, er að vísu takmarkað en tjónþolarnir bera skaðann. Ef kvótinn er á hinn bóginn seldur má nota afraksturinn af þeirri sölu til að bæta tjón á sama hátt og ef um skattlagningu er að ræða.

Framseljanlegur kvóti hefur þann meginkost umfram skatta að hvatinn til að finna nýjar leiðir til að stemma stigu við losun eða tjóni, aðrar en að draga úr framleiðslu, helst óbreyttur. Sem dæmi um aðgerð af þessum toga er binding á koltvísýringi beint úr andrúmsloftinu, óháð hinni mengandi framleiðslu, eins og mögulegt er með skógrækt.