Óskatré framundan: Verk Lóu.Um liðna helgi opnaði í trjásafninu í Hallormsstaðaskógi listsýningin „Óskatré framundan“. Opnunin fór fram í miklu blíðviðri að viðstöddu fjölmenni.

Óskatré framundan.Þetta er í sjöunda sinn sem listsýning er haldin í trjásafninu í Hallormsstaðaskógi en í skóginum hefur fjöldi listamanna sýnt verk sín. Um hefur verið að ræða bæði  íslenska og erlenda listamenn sem allir hafa verið áberandi á vettvangi samtímalistar undanfarin ár og áratugi.

Listamennirnir sjö sem eiga verk á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera allir uppaldir á Austurlandi eða búsettir þar nú um stundir, en þeir eru Helgi Örn Pétursson, Hjálmar Kakali Baldursson, Íris Lind Sævarsdóttir, Ólöf Björk Bragadóttir (Lóa), Sylvía Dögg Halldórsdóttir, Þór Vigfússon og Þórunn Eymundardóttir.

Sýningin er gestum skógarins opin til 1. október n.k., aðgangur er ókeypis og sýningin er afskaplega fjölskylduvæn. Ekki er nóg með að í sýningarsalnum megi bæði hlaupa og hoppa, heldur má einnig klifra og leika sér í öllum listaverkunum. 

Skógrækt ríkisins stendur að sýningunni en Menningarráð Austurlands og Héraðsprent styrkja sýninguna. Sýningarstjóri er Íris Lind Sævarsdóttir.



















Myndir og texti: Esther Ösp Gunnarsdóttir