(mynd: Ólafur Oddsson)
(mynd: Ólafur Oddsson)

Dagana 14. og 15. ágúst sóttu 40 leik- og grunnskólakennarar útinámskeið í svokölluðu flæðinámi þar sem notaðar voru aðferðir Joseph Cornells sem rekur samnefndan háskóla í Bandaríkjunum. Námskeiðið fór fram í Ólaskógi í Kjósinni. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þær Margrét Lára Eðvarðsdóttir kennari í Kleppjárnsreykjaskóla og Ása Erlingsdóttir kennari í  Varmalandsskóla.  Þær sóttu námskeið hjá J.Cornell í Þýskalandi í fyrra haust og fengu leyfi til að nota efni hans á námskeiðinu og m.a. var stuðst við bækur hans Sharing nature with Children I og II.

Margrét og Ása leiddu þátttakendur um skóginn í ýmsum skemmtilegum verkefnum sem byggja á virkri þátttöku, sköpun og upplifun þátttakenda í einstaklingsvinnu og í hópstarfi. Aðferðirnar eru notaðar sem tæki í innsettningu og kveikju í útinámi og ætlað að vekja áhuga nemenda á frekari vinnu í útinámi og spilar leikurinn og gleðin því stórt hlutverk í þessum aðferðum. Aðferðirnar eru kerfisbundnar og faglegar og ætlað að tryggja hámarks árangur nemenda í skólastarfi.

Eins og sjá má á myndunum nutu þátttakendur sín í blíðu veðri og skógarumhverfi. Þess má geta að Ása og Margrét skrifuðu lokaritgerð sína í B.Ed námi við KHÍ um LÍS- verkefnið og tengdu öll fög grunnskólans við skóginn og notuðu Cornell aðferðirnar til þess. Þegar  námskeiðið var auglýst í vor fylltist það á örfáum dögum. Því má gera ráð fyrir að hér sé aðeins um fyrsta Cornell námskeiðið að ræða og fleiri eigi eftir að bætast við síðar. Námskeiðið var haldið af LÍS-verkefninu í samvinnu við Náttúruskóla Reykjavkur. Þeir sem vilja leita frekari upplýsinga er bent á að hafa samband við Margréti Láru (margret(hjá)gbf.is), Ásu (asa(hjá)varmaland.is) eða Ólaf Oddsson (oli(hjá)skogur.is).


Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009: Margrét og Ása taka á móti þátttakendum

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009:

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009: Í Ólaskógi

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009: Ólafur lýsir hönnun í skógarumhverfi

Kennaranámskeið um flæðinám í ágúst 2009: Tréð búið til