Seljendur enn fleiri en í fyrra

Litlu mátti muna að vísa þyrfti frá áhugasömu fólki sem vildi selja afurðir sínar og framleiðslu á jólamarkaðinum á Vöglum sem að þessu sinni verður haldinn í starfstöð Skógræktarinnar í Vaglaskógi laugardaginn 9. desember. Auk jólatrjáa, greina, arinviðar og fleiri afurða úr skóginum verða fjölbreyttar þingeyskar framleiðsluvörur til sölu á markaðnum og nemendur Stórutjarnaskóla selja veitingar.

Markaðurinn er nú haldinn í þriðja sinn. Aðsókn var góð fyrstu tvö árin og kom fólk víða að úr Þingeyjarsýslum og Eyjafirði til að skoða og kaupa, sýna sig og sjá aðra. Nú er svo komið að húsnæði á Vöglum leyfir ekki mikla fjölgun söluborða á markaðnum, svo mikill er áhugi fólks að selja vörur sínar, handverk ýmiss konar, mat úr héraði og fleira.

Að venju nýta nemendur Stórutjarnaskóla jólamarkaðinn á Vöglum til fjáröflunar fyrir ferðasjóð sinn með því að selja kaffi og meðlæti. Markaðurinn hefst klukkan 13 á laugardag og stendur til klukkan 17.

Upplýsingar um fleiri viðburði tengdar jólum, jólatrjám og skógum á aðventunni má finna hér.