Árlegi jólamarkaðurinn Jólakötturinn verður haldinn að venju laugardaginn 14. desember kl. 10-16 að Valgerðarstöðum í Fellum. Um 60 seljendur setja upp söluborð á markaðnum og verða með fjölbreytilegan varning, jólatré og fleiri skógarafurðir, matvöru, handverk og fleira og fleira.

Þetta verður í fjórtánda sinn sem markaðurinn er haldinn. Hann verður í rúmgóðum vinnslu­sölum Jurtar ehf (wasabi-ræktarinnar) þar sem Barri var áður til húsa. Nóg er þar af bíla­stæð­um og seljendur alls kyns varnings verða sem fyrr segir alls um 60 talsins.

Seld verða jólatré bæði frá Skóg­ræktinni og skógarbændum, rauðgreni, blágreni, stafafura, fjallaþinur og fleiri skógarafurðir svo sem eldiviður og sitthvað annað.

Matvara er stór þáttur á markaðinum að venju, skata, síld og rúg­brauð, svínakjöt, makríll, smákökur, flatbrauð og annað bakkelsi, einnig ýmiss konar handverk, t.d. vörur úr íslenskum viði, handgerð kerti, gler­vara, prjónavörur og fleira.

Að markaðnum standa Félag skógarbænda á Austurlandi og Skógræktin á Hallormsstað.

Upplýsingar um fleiri viðburði tengdar jólum, jólatrjám og skógum á aðventunni má finna hér.