Hallþór skógarhöggsmaður við myndarlegt torgtré úr þjóðskógum Vesturlands. Hæsta tréð sem tekið var …
Hallþór skógarhöggsmaður við myndarlegt torgtré úr þjóðskógum Vesturlands. Hæsta tréð sem tekið var í ár mældist 11,5 metrar. Ljósmynd: Jón Auðunn Bogason

Vel hefur viðrað til að sækja jólatré í þjóðskógana þetta árið. Hæsta torgtréð sem tekið var þetta árið reyndist vera 11,5 metra hátt og kom af Vesturlandi. Trén líta vel út í ár í öllum landshlutum. Veirufaraldurinn hefur ekki haft áhrif á vinnuna í skóginum en kemur hins vegar í veg fyrir hefðbundna viðburði í skógunum í aðdraganda jólanna. Allir ættu þó að geta nælt sér í ilmandi íslenskt jólatré. Þá eru líka íslenskir könglar til sölu í visthæfum pappaumbúðum auk greina, skreytingaefnis, eldiviðar og fleira úr skóginum. 

Skógur.is hafði samband við skógarverði Skógræktarinnar og innti þá tíðinda af starfinu nú fyrir jólin. Hér á eftir fer yfirlit úr skógarvarðarumdæmunum.

Vesturland

Á þessu fallega grenitré sem Helgi skógarhöggsmaður stendur við sést að ókeypis jólaskraut fylgir með mörgum trjánum þetta árið enda var mjög mikil fræframleiðsla hjá greninu í sumar. Ljósmynd: „Við vorum einstaklega heppnir með tíðarfarið þegar við unnum torgtrén. Stilla og veðurblíða einkenndi þessar þrjár vikur á meðan að vinnunni stóð og auðveldaði það vinnuna mjög. Tíðarfarið núna undanfarið sem er tímabilið sem verið er að vinna heimilistré hefur verið heldur vindasamara.“ Þetta segir Jón Auðunn Bogason, skógarvörður á Vesturlandi, þegar skogur.is innti hann tíðinda af jólavertíðinni þetta árið. Jón Auðunn segir að lítið sem ekkert sé nú tekið af heimilistrjám úr þjóðskógunum á Vesturlandi enda lítið að finna af trjám í réttri stærð þar um slóðir. Hins vegar séu nokkrir öflugir skógarbændur í Borgarfirði farnir að selja heimilistré sem fullnægir eftirspurn á Vesturlandi og jafnvel víðar.

Um 50 torgtré voru hins vegar tekin fyrir sveitarfélög sem er svipað og undanfarin ár. Það hæsta var 11,5 metra hátt. Auk torgtrjánna selst nokkuð af greinum til skreytinga, segir Jón Auðunn. Eins sé alltaf mikil eftirspurn eftir eldiviði í kringum hátíðirnar. Aðspurður um áhrif veirufaraldursins segir Jón Auðunn að sem betur fer sé þetta vinna þar sem auðvelt er að halda fjarlægðatakmarkanir og þess háttar. Helsti munurinn sé líkelga félagslegur, ekkert um að vera eða tilað gera sér dagamun eins og jólahlaðborð eða þess háttar.

Áralöng hefð er fyrir því hjá Vesturlandsdeildinni að bjóða fólki í skóginn og fella eigið heimilistré en því miður þurfti að ákveða að fella niður alla slíka viðburði í desember. Jón Auðunn segir að rólegur desembermánuðurinn hafi verið nýttur til að dytta að fasteignum og tækjum á starfstöðinni í Hvammi Skorradal.

Norðurland

Úr Vaglaskógi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÁ Norðurlandi viðraði vel til að höggva jólatré. Þar voru tekin rúmlega 100 tré og trén falleg þetta árið, sérstaklega rauðgrenið, að sögn Rúnars Ísleifssonar skógarvarðar. Stór hluti trjánna fer í jólatrjásölu Skógræktarfélags Eyfirðinga í Kjarnaskógi en nokkuð er selt beint. Enginn jólamarkaður er í Vaglaskógi þetta árið vegna veirufaraldursins en þó verður opið einn dag nú fyrir jólin svo fólk geti komið í Vaglaskóg og nælt sér í jólatré, greinar og fleira skreytingarefni. Rúnari sýnist áhuginn á íslensku trjánum ívið meiri nú hjá almenningi en honum þykir miður að sumir af stærstu seljendum jólatrjáa skuli ekki hafa meiri áhuga á að selja íslensk tré.

Jólatrjásalan í Vaglaskógi verður opin laugardaginn 12. desember milli kl. 13 og 16.

Austurland

Markaðurinn Jólakötturinn er ekki með hefðbundnu sniði í ár en hægt verður að ná sér í jólatréÁ Austurlandi hafa aðstæður til jólatrjáhöggs verið afar hagstæðar, segir Þór Þorfinnsson skógarvörður, snjólaust og þurrt. Hann reiknar með að fjöldinn verði svipaður og síðustu ár eða rúmlega 700 tré, rauðgreni, stafafura, blágreni og fjallaþinur. Eins og nyrðra líta trén vel út í ár og hafa haldið lit sínum vel, segir Þór. Að austan kaupir Skógræktarfélag Eyfirðinga stærstan hluta trjánna til sölu í Kjarnaskógi en afgangurinn er seldur almenningi og fyrirtækjum eystra. Þór segir að í ár hafi verið felld rúmlega 20 tré sem eru yfir 3 metrar á hæð og það hæsta tæplega tíu metrar.

Aðspurður um hvernig veirufaraldurinn hefur áhrif á jólatrjáavertíðina í ár segir Þór að það eina sem nú sé frábrugðið sé að smásala trjánna sem fram fer á Egilsstöðum sé flóknari í framkvæmd. Hann finnur ekki fyrir breytingum á áhuga fólks á íslenskum trjám fram yfir innflutt eða gervitré. Stærsta breytingin þetta árið sé líklega sú að  hinn hefðbundni jólamarkaður Jólakattarins á Valgerðarstöðum í Fellum fer ekki fram í ár vegna COVID-19. Í staðinn ætla nokkrir skógarbændur á Héraði í samvinnu við Skógræktina á Hallormsstað að sameiginlega jólatré tvo laugardaga í desember á Egilsstöðum.

Suðurland

Nú þarf ekki að kaupa innflutta köngla í plastpokum lengur. Ljósmynd: Harpa Dís Harðardóttir Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir að tíðarfarið í haust hafi verið gott þar um slóðir, október með eindæmum góður og nóvember lengst af líka. Öll torgtré höfðu verið sótt í byrjun desember og komið til kaupenda, sem og öll heimilistré sem pöntuð höfðu verið. Þeim var dreift til smásala fyrstu dagana í mánuðinum. Langmest er tekið af stafafuru en einnig smáræði af rauðgreni og blágreni. Tvær stærðir segir Trausti vinsælastar, 100-150 cm og 151-200 cm. Alls áætlar Trausti að heimilistrén frá Skógræktinni á Suðurlandi verði milli 700 og 800 talsins þetta árið.

Allar tegundir líta vel út þetta árið, segir Trausti. Stafafuran sé einkar falleg í ár og ekki hefur borið á neinni óværu í grenitegundunum. Byko er stærsti kaupandi trjánna af Suðurlandi og þangað fara tæplega 600 tré. Farfuglar í Laugardal eru líka að sækja í sig veðrið í jólatrjásölunni og Garðlist hefur sömuleiðis tekið þó nokkuð mörg tré líkt og fyrri ár.

Torgtré tekin úr sunnlensku þjóðskógunum urðu um 40 talsins að þessu sinni, flest tekin á Tumastöðum en þau stærstu í Þjórsárdal. Hæsta tréð var 10,5 metrar. Eins og við höfum sagt frá hér á skógur.is stóð starfsfólk Skógræktarinnar á Suðurlandi fyrir lofsverðu framtaki í ár. Skógræktin á Suðurlandi í samstarfi við Litla-Hraun hefur framleitt jólagreinar og könglakassa sem seldir eru í öllum betri verslunum. Byko hefur verið stærsti kúnninn í ár en Farfuglar, Garðheimar og fleiri hafa einnig tekið greinarnar og könglana í sölu. Þá nefnir Trausti að svokölluð tröpputré séu alltaf vinsæl, tré sem gott er að stilla upp við útidyrnar heima eða þar sem henta þykir við heimili og vinnustaði.

Aðspurður um áhrif veirufaraldursins segist Trausti ekki finna mikinn mun. Vissulega séu ekki mannfagnaðir eins og venjan er á þessum árstíma. Hins vegar hafi fólk verið duglegt að heimsækja skógana og eflaust hafi COVID-19 eitthvað um það að segja. Fólk leitar í skjólið, náttúruna, útsýnið og kraftinn í skóginum. Trausti finnur fyrir miklum áhuga á innlendu trjánum og öðrum afurðum úr skógunum. Fólk sé jákvætt og þá hafi jólagreina- og könglasalan vakið jákvæða athygli.

Ekki er í boði að koma í Haukadalsskóg og fella eigið tré eins og venjan hefur verið. Það er „út af dottlu“ eins og nú er tekið til orða. Trausti segir þó að reynt sé eftir megni að uppfylla óskir viðskiptavina sem hafa í ár og jafnvel áratugi komið í skóginn til að sækja sér tré. Hann segir að áhugi almennings og atvinnulífsins á íslenskri skógrækt sé alltaf að aukast, fólk sæki mikið í skógana og meiri meðvitund sé um að nota innlent efni. „Mikil eftirspurn er eftir arinviði og smíðaviði úr skógunum okkar,“ segir Trausti.

Jólavefur Skógræktarfélaganna

Vert er að benda fólki líka á jólavef skógræktarfélaganna sem er að finna á vef Skógræktarfélags Íslands. Þar er hægt að finna upplýsingar um hvar kaupa megi íslensk jólatré og jafnvel komast út í skóg að sækja sér tréð á eigin spýtur.

Texti: Pétur Halldórsson